Fundur hafinn í fjármálaráðuneytinu

Formenn stjórnmálaflokkanna eru komnir til fundar fjármálaráðuneytinu þar sem rætt um nýtt tilboð frá Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu. Hluti samninganefndarinnar situr einnig fundinn. Reuters fréttastofan greinir frá því að jafnvel sé von á gagntilboði frá Íslendingum í dag.

Elías Jón Guðjónsson, talsmaður fjármálaráðuneytisins, segir að Íslendingar muni jafnvel leggja fram gagntilboð í dag í Icesave-deilunni en Bretar og Hollendingar lögðu fram tilboð til Íslendinga á föstudagskvöldið. Formenn stjórnmálaflokkana ætla að hittast á fundi í hádeginu í dag og ræða tilboðið.

Í samtali við Reuters fréttastofuna segir Elías Jón að mögulegt sé að gagntilboðið verði lagt fram í dag. Einar Karl Haraldsson, talsmaður forsætisráðuneytisins, segir við Reuters að leiðtogar stjórnmálaflokkanna vinni að  svari við tilboði Hollendinga og Breta. Hins vegar liggi ekki fyrir hvert það verður.

Bretar og Hollendingar gera ráð fyrir 2,75% álagi ofan á breytilegu vextina, sem þeir leggja til í tilboði sínu til Íslendinga um nýjan Icesavesamning. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins þykir íslensku viðræðunefndinni og forystumönnum flokkanna sem funduðu stíft um helgina, sem þetta sé afar hátt álag. Bent er á að gangi spár um þróun breytilegra vaxta eftir, gæti vaxtabyrðin orðið mjög mikil þegar líða tekur á samningstímabilið.

Að sögn heimildarmanna er samstaða meðal þeirra sem sátu fundina um helgina um að hið nýja tilboð frá Bretum og Hollendingum geti ekki orðið viðræðugrundvöllur um nýjan Icesave-samning, þótt menn séu jafnframt á því að tilboðið sé hagstæðara en gamli Icesave-samningurinn.

Einn viðmælandi Morgunblaðsins sagði í gærkvöld að stóra spurningin nú væri sú, hvort Bretar og Hollendingar væru reiðubúnir til þess að fara í framhaldsviðræður við Íslendinga, en það hefði verið gefið mjög sterklega í skyn í tilboði þeirra frá því á föstudagskvöld að um lokasvar væri að ræða af þeirra hálfu.

Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson mæta á fundinn
Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson mæta á fundinn mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Bjarni Benediktsson mætir á fund vegna Icesave
Bjarni Benediktsson mætir á fund vegna Icesave mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert