Verkfalli flugvirkja lokið

Samningar hafa náðst í kjaradeilu flugvirkja og Icelandair en samningar voru handsalaðir rétt fyrir klukkan átta í morgun í húsnæði ríkissáttasemjara. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, talsmanns Icelandair, er ljóst að ekki ná allar vélar að fara í loftið klukkan 8:30 en fyrr í morgun frestaði félagið öllu morgunflugi til klukkan 8:30. 

Innritun var með eðlilegum hætti hjá Icelandair í morgun og því munu farþegar fara um borð í vélar Icelandair innan skamms. Ekki liggur ljóst fyrir á þessari stundu hversu miklar tafirnar verða en vonast Guðjón að þær verði ekki miklar.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissáttasemjara er ekki búið að skrifa undir kjarasamninga enda samningar handsalaðir skömmu fyrir klukkan átta í morgun. Höfðu samninganefndir setið á fundi síðan klukkan 11 í gærmorgun en verkfall flugvirkja Icelandair hófst á miðnætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert