Nokkuð góð staða í Icesave-málinu

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra metur stöðuna í Icesave samningunum nokkuð góða. Það sem liggi á borðinu nú sé verulega betra fyrir Íslendinga en fyrirliggjandi samningur kveður á um.

Aðspurður sagði Össur eftir ríkisstjórnarfund í morgun ekki komið svar frá Bandaríkjunum um það hvort hann fái viðtal við Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Hann sagði miklu máli skipta hversu góð samstaða væri milli stjórnar og stjórnarandstöðu um Icesave-málið. Tilboð Breta og Hollendinga væri mun betra en það sem fyrri samningar kvæðu á um en menn vildu freista þess að ná enn betri lendingu í málinu.

Þá var Össur spurður hvort hann teldi útlit fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave færi fram. Hann sagði spurningu hvort ástæða væri að greiða atkvæði um fyrirliggjandi samning sem vitað væri að væri verri en nýjustu tilboð gengju út á. Ómögulegt væri að segja hvort lending næðist í málinu fyrir þann tíma enda þekkt að vika geti verið langur tími í pólítík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert