„Ég var rekinn“

Jón Kaldal, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins.
Jón Kaldal, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins. Jim Smart

„Ég var rekinn,“ sagði Jón Kaldal, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins aðspurður um hvort starfslokin á blaðinu hafi verið að hans frumkvæði. Honum var tilkynnt uppsögn seinnipartinn í gær og kvaddi hann vinnustaðinn í gærkvöldi en á eftir að kveðja starfsfólkið.

Uppsögnin átti sér engan aðdraganda að mati Jóns. Ari Edwald, forstjóri 365, miðla tilkynnti honum uppsögnina.

„Ég kveð Fréttablaðið með söknuði, það er frábær vinnustaður. Ég tel mig skila góðu búi. Við höfum aldrei verið með meiri lestur á okkar kjarnasvæði en í síðustu könnun og frábæran lestur á landsvísu,“ sagði Jón. Hann sagði þetta ekki síst góðan árangur í ljósi þess að eintökum blaðsins hafi verið fækkað og dreifingu þess breytt.

„Ég er mjög ánægður með þann hluta og að sama skapi rekstrarlega þáttinn. Við vorum í fínum málum þar. Ég er stoltur af mínum störfum á Fréttablaðinu og kveð það með söknuði.“

-En voru einhverjir sérstakir samstarfserfiðleikar við stjórnendur 365 miðla?

„Við Ari [Edwald, forstjóri] höfum átt í fínu samstarfi en langt í frá sammála um allt. Við höfum tekist á en af hreinskilni á báða bóga. Ef útgefandi og ritstjóri eru ekki sammála um alla þætti þá er ljóst hvor víkur,“ sagði Jón.

Aðspurður sagði Jón að honum hafi ekki verið boðinn sá kostur að deila ritstjórninni með nýjum ritstjóra og að það hafi ekki verið rætt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert