Um 20% Norðmanna telja Íslendinga eiga að greiða

Norski fáninn
Norski fáninn Reuters

Um 20% Norðmanna telja rétt að Íslendingum verði gert að endurgreiða Bretum og Hollendingum að fullu vegna útborgunar yfirvalda í þessum löndum til innistæðueigenda vegna gjaldþrota íslenskra banka. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR. Þetta eru ríflega tvöfalt fleiri en sögðu Íslendinga eiga að bera fulla ábyrgð í málinu í sambærilegri könnun MMR meðal almennings í Svíþjóð. 9% Svía töldu að Íslendingum bæri að endurgreiða Bretum og Hollendingum að fullu.

MMR kannaði afstöðu almennings í Noregi til kröfu Breta og Hollendinga á hendur íslenskum stjórnvöldum vegna Icesave skuldbindinganna. Í könnuninni kom jafnframt fram að 13% Norðmanna svöruðu því til að Íslendingar ættu að neita að endurgreiða Bretum og Hollendingum og 27% Norðmanna töldu að kostnaður vegna útborgana til innistæðueigenda ætti að deilast milli landanna þriggja. 41% svarenda sögðust ekki hafa skoðun á málinu.

Séu niðurstöður skoðaðar eingöngu fyrir þá sem gáfu upp tiltekna afstöðu í málinu (sem voru 59% svarenda) kemur í ljós að 33% þeirra töldu að Íslendingum bæri einum að axla kostnaðinn vegna útborgunar til innistæðueigenda en 67% töldu annað hvort að deila bæri kostnaðinum milli landanna þriggja (45%) eða þá að Íslendingar ættu að neita að endurgreiða Bretum og Hollendingum (22%).

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina