Frumvarp um bann við happdrættaauglýsingum í smíðum

Frumvarp er í smíðum í dómsmálaráðuneytinu sem á að stoppa í göt á happdrættislögum. Samkvæmt frumvarpinu verður refsivert að auglýsa veðmálastarfsemi eða fjárhættuspil hér á landi hvort sem sú starfsemi á sér stað hér eða í útlöndum. 

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, spurði Rögnu hvort ekki gilti almennt bann við veðmálaauglýsingum. Vísaði hann til auglýsingar á vefnum vísi.is í dag sem væri sérstaklega sniðin að því að lokka spilafíkla inn í spilavíti á netinu.

Ögmundur sagði, að fjárhættuspil væru bönnuð á Íslandi samkvæmt hegningarlögum og spurði hvort ekki væri verið að brjóta landslög með þessari auglýsingu.

Ragna sagði, að í lögum um happdrætti væri almennt bann við auglýsingum og talið hefði verið að þau lagaákvæði næðu yfir auglýsingar af því tagi, sem Ögmundur vísaði til. Á síðasta ári hefði Hæstiréttur hins vegar sýknað mann, sem var ákærður fyrir að brjóta happdrættislöggjöfina með slíkum auglýsingum þar sem um var að ræða auglýsingar fyrir starfsemi sem ekki fór fram hér á landi.

Sagði Ragna að þetta hefði verið ófyrirséð gat á löggjöfinni og stoppa þyrfti í það gat. Því væri í smíðum frumvarp um að breyta refsiákvæði happdrættislöggjafarinnar þannig, að það skipti ekki máli hvort auglýsingin sé fyrir starfsemi sem er hér á landi eða erlendis.

Ragna sagði, að einnig væru í undirbúningi lagabreytingar sem gerðu kleift að takmarka veðmál og happdrættisstarfsemi á netinu. Það væri ekki auðvelt en þetta viðfangsefni væri einnig til umfjöllunar í nágrannalöndunum.

Ögmundur sagði, að ekki væri eingöngu verið að fjalla um auglýsingar fyrir fjárhættuspil heldur beinan aðgang að spilavíti á vefnum. Því fagnað hann því að verið væri að herða löggjöf um þessar auglýsingar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert