Kreppu auðvalds velt yfir á almenning

„Við viljum vekja athygli á því hvers konar óréttlæti fer hér fram,“ segir Kristín Snæfells Arnþórsdóttir, ein þeirra sem stóðu að mótmælum þegar fulltrúi sýslumannsins í Hafnarfirði bauð upp hús við Selvogsgötu í morgun.

„Þetta er skömm og svívirðing. Nú er þetta fólk sem hér bjó flúið af því það gat ekki borgað meir. Og lífeyrissjóðurinn - einn af okkar sjóðum - ætlaði að taka þetta hús á tvær milljónir,“ segir Kristín.

Almenni Lífeyrissjóðurinn keypti húsið á tuttugu milljónir, en byrjaði á því að bjóða tvær. Sjóðurinn á rúmlega þrjátíu milljóna króna kröfu á húsgeiganda, sem var aðal ástæða þess að húsið var boðið upp.

Samtökin Heimavarnarliðið stóð fyrir mótmælunum, og söng meðal annars lagið „Fram, fram fylking“ á meðan uppboðið fór fram. Lögð var sérstök áhersla á orðin „Ræningjar oss vilja ráðast á“.

„Við viljum fylgjast með því hörmungarferli, sem eignaupptaka af völdum bankanna er,“ segir Þorvaldur Þorvaldsson hjá Heimavarnarliðinu. Hann gagnrýnir að kreppu auðvaldsins skuli velt yfir á almenning.

Fulltrúi sýslumannsins í Hafnarfirði bauð íbúðina upp.
Fulltrúi sýslumannsins í Hafnarfirði bauð íbúðina upp. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert