Ekki þörf á AGS lánunum fyrr en á næsta ári

Arnór Sighvatsson
Arnór Sighvatsson

Íslenska ríkið getur komist af án frekari lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þar til endurfjármagna þarf skuldir ríkisins á næsta ári. Frekari tafir á erlendir efnahagsaðstoð koma illa við efnahag landsins.

Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir Arnóri Sighvatssyni, aðstoðarseðlabankastjóra. Hvatti Arnór erlenda fjárfesta til að halda ró sinni, fari svo að íslenska þjóðin hafni Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardag. Slíkt muni þó að öllum líkindum frysta greiðslur á þeirri erlendu fjárhagsaðstoð sem þörf sé á til að endurreisa efnahag landsins.

„Það eru enginn sérstök tímamörk  sem frekari tafir hefðu alvarleg eftirköst á,“ sagði Arnór. „En ef þetta dregst yfir á árið 2011 þá stöndum við frammi fyrir alvarlegum vanda varðandi endurfjármögnun.“ 

Sú óvissa sem ríki um það hvenær næstu lánagreiðslur AGS verði afgreiddar, hafi þó í för með sér að Seðlabankinn geti ekki dregið úr gjaldeyrishöftum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert