Kynjakvóti í stjórnum fyrirtækja

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Heiðar

Alþingi samþykkti í dag lög sem gera meðal annars ráð fyrir því, að í stjórnum opinberra hlutafélaga og einkahlutafélaga með fleiri en þrjá stjórnarmenn skuli hlutfall hvors kyns í stjórninni vera að minnsta kosti 40% í lok árs 2013.

Þingmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði með frumvarpinu og lýstu stuðningi við ákvæðið um kynjakvótann. Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, sagði að með þessu væri mikilvægum áfanga í kvennabaráttunni og þingræðinu væri náð.

Ragnheiður E. Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að þingmenn flokksins væru á móti kynjakvóta og Erla Ósk Ásgeirsdóttir, flokkssystir hennar, sagði að konur þurfi ekki meðgjöf í viðskiptalífinu.

Í frumvarpinu, sem samþykkt var í dag, eru einnig ákvæði um að skylda stjórn hlutafélags til að sjá til þess að hlutaskrá geymi á hverjum tíma réttar upplýsingar um hluthafa, hlutafjáreign þeirra og atkvæðisrétt. Þá skuli stjórn félags leggja fyrir aðalfund samantekt um hlutafjáreign einstakra hluthafa, rétt þeirra til að greiða atkvæði og um breytingar sem orðið hafa á árinu. Er tilgangurinn að auka gagnsæi hvað varðar eignarhald og atkvæðisrétt í íslenskum hlutafélögum og koma þannig til móts við þá gagnrýni að það hafi skort í íslensku viðskiptalífi.

Þá er kveðið á um að stjórnarformenn hlutafélaga hafi ekki heimild til að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem falla undir eðlileg störf stjórnarformanns. Er markmiðið að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra ef stjórnarformaður er jafnframt starfsmaður félagsins þar sem hann stjórni þá í raun eftirliti með sjálfum sér.

mbl.is