Áfram skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli

Óvenjumikil smáskjálftavirkni er nú við Eyjafjallajökul.
Óvenjumikil smáskjálftavirkni er nú við Eyjafjallajökul. rax

Skjálftavirkni hefur verið áfram undir Eyjafjallajökli í nótt, en óvenjumikil skjálftavirkni hefur verið undir jöklinum sl. sólarhringa. „Það er búið að vera mikið af skjálftum í nótt, svipað og í gær,“ segir Einar Kjartansson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Ísland.

Frá því á miðnætti í nótt og til klukkan fimm í morgun var Veðurstofan búin að staðsetja 75 skjálfta, sem búið var að fara yfir, en ekki eru allir skjálftar skoðaðir. Stærsti skjálftinn varð um kl. 6.15 í morgun og mældist hann 3,1 á richter, en annars hafa stærstu skjálftarnir mælst í kringum 2 á richter.

„Þetta er líklega vegna innskotavirkni undir Eyjafjallajökli,“ segir Einar og bætir við: „jökullinn hefur líka verið að þenjast út, sem bendir til þess sama.“ Hann segir þó ómögulegt að spá til um hvort jökullinn róist á ný eða hvort það endi með eldgosi. „Það er líklegra að hann róist, en það er ekki hægt að útiloka gos.“

Áfram verður fylgst með þróun mála hjá Veðurstofunni. „Það verður endurskoðað í dag hvort við sitjum yfir þessu um helgina, en ef það dregur ekki úr skjálftavirkninni þá á ég nú frekar von á að við gerum það.“

 Síðast gaus í Eyjafjallajökli 1821. 

mbl.is