Mótmæla innheimtuaðferðum fjármögnunarfyrirtækja

Samtök lánþega krefjast aðgerða sem vernda launþega gagnvart skuldheimtum fjármögnunarfyrirtækja.
Samtök lánþega krefjast aðgerða sem vernda launþega gagnvart skuldheimtum fjármögnunarfyrirtækja. mbl.is/Golli

Samtök lánþega mótmæla þeim aðferðum sem fjármögnunarfyrirtæki beita nú til að innheimta gengistryggða lánasamninga sem ekki fá staðist lög. Þetta segir í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér í kvöld. Vilja Samtök lánþega af því tilefni beina því til stjórnvalda að taka með sambærilegum hætti á fyrirtækjum „sem hvorki láta segjast af settum lögum né dómafordæmi, eins og saklausum launþegum sem berjast með löglegum hætti fyrir bættri lífsafkomu,“ að því er segir í tilkynningunni.


„Samtök lánþega krefjast nú þegar aðgerða sem vernda almenna borgara þessa lands gagnvart skuldheimtumönnum fjármögnunarfyrirtækja. Samtökin benda á að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir lánþega, en ljóst má vera að staðfesti Hæstiréttur þá túlkun að gengistryggð lán standist ekki lög, munu fjármögnunarfyrirtækin fara í þrot hvert af öðru.


Með gjaldþroti fjármögnunarfyrirtækja minnka möguleikar lánþega á að ná fram rétti sínum til muna og nánast öruggt má telja að lánþegar muni þá tapa verulegum fjárhæðum sem ofgreiddar hafa verið inn í þessi deyjandi fyrirtæki.


Því er brýnt að stjórnvöld grípi þegar í taumana og setji lög sem sporna gegn því gengdarlausa óréttlæti sem lánþegar eru beittir af fjármögnunarfyrirtækjum. Stjórnvöld hafa nú sýnt, með hótun um aðgerðir gegn flugumferðastjórum, að kjarkur virðist vera til staðar. Því krefjast Samtök lánþega að tafarlaust verði sett lög sem vernda hagsmuni fjöldans gagnvart yfirgangi fárra aðila og sýni með því nauðsynlegan kjark til að velja rétt frá röngu og standa þeim megin við girðinguna sem uppbyggingin hefst.“


Er tilefni yfirlýsingarinnar sagður vera fjöldi símtala og tölvupósta frá áhyggjufullum lánþegum. Í samtölum við þá hafi komið fram kvartanir vegna framferðis Lýsingar hf. sem þrátt fyrir dóm gegn ákveðnum samningum fyrirtækisins, hafi haldið áfram að innheimta á grundvelli hinna nýlega dæmdu ólöglegu samninga.


„Samtök lánþega vilja því benda á að þrátt fyrir að dómi hafi verið áfrýjað, þá hafi dómstóll kveðið upp dóm sem ekki hefur verið hrakin. Því beri lögum samkvæmt að túlka óljós samningsákvæði lánþega í vil samanber b. lið 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Sú skylda hlýtur því að hvíla á stjórnvöldum að koma almennum lánþegum til varnar í baráttu sinni gegn ólögmætum innheimtum. Að öðrum kosti er ekki hægt að líta öðruvísi á en að hér séu stjórnvöld að líða þjófnaðinn vegna velþóknunar á þeim sem stelur.“

mbl.is