23 teknir á klukkustund

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is

Alls 23 ökumenn voru teknir er þeir óku of hratt um Flatahraun í Hafnarfirði í gær. Lögreglan fylgdist með ökutækjum sem var ekið Flatahraun í vesturátt, við Gjótuhraun í eina klukkustund, eftir hádegi. Hún var á ómerktri bifreið. Þá fóru 280 ökutæki þessa akstursleið og því óku 8% ökumanna of hratt. Meðalhraði hinna brotlegu var 63 km/klst en þarna er 50 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 67.

Fyrir ári var lögreglan við hraðamælingar á þessum sama stað á Flatahrauni en þá óku hlutfallslega færri, eða 5%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Árið áður (2008) var niðurstaðan einnig 5%.

Þá voru brot sextán ökumanna mynduð á Hraunbrún í Hafnarfirði í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Hraunbrún í suðurátt, að Tunguvegi. Á einni klukkustund, fyrir hádegi, fóru 27 ökutæki þessa akstursleið og því ók meirihluti ökumanna, eða 59%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var rúmlega 44 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 51.

Mælingarnar lögreglunar eru hluti af sérstöku umferðar- og hraðaeftirliti í og við íbúðargötur í umdæminu, samkvæmt fréttatilkynningu frá henni.

mbl.is