Lokun á Suðurlandsvegi aflétt

Lögreglan er með vakt við afleggjarann að Skógum.
Lögreglan er með vakt við afleggjarann að Skógum. Ómar Óskarsson

Umferðartakmörkunum sem fram að þessu hafa verið við Hellu og við Skóga hefur verið aflétt. Umferð hefur verið hleypt á Suðurlandsveg en almannavarnanefnd beinir þeim tilmælum til fólks að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.

Almannavarnarnefnd fundaði með vísindamönnum og deildarstjóra Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra í morgun og í dag og í framhaldi af því hafa verið teknar eftirfarandi ákvarðanir:

Í tilkynningu frá almannavarnarnefnd segir að gossvæðið sé hættusvæði og því lokað allri umferð. Lagt er fyrir eigendur sumarhúsa á hættusvæðinu að dvelja ekki í húsum sínum í nótt.

Rýmingar sem verða í gildi í nótt eru eftirfarandi:

Drangshliðardalur verður rýmdur.

Austur Eyjafjöll, ofan vegar verða eftirtaldir bæir rýmdir: Núpakot, Þorvaldseyri, Seljavellir og Lambafell

Austur Eyjafjöll, neðan við veg: Önundarhorn, Berjanes, Stóra Borg, Eyvindarhólar og Hrútafell. (Ystabæli, Miðbælisbakkar engir íbúar þar)

Rýmingar í Fljótshlíð: Rauðuskriður og Fljótsdalur,

Rýmingar í Austur-Landeyjum: Brú, Leifsstaðir

Öðrum rýmingum er þar með aflétt. Enn er unnið á Neyðarstigi. Rýmt verður að nýju ef forsendur breytast.

Takmarkanir á umferð

Umferð hefur fram að þessu verið stöðvuð við Hellu og við Skóga. Henni verður nú hleypt á Suðurlandsveg en tilmæli til fólks að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu. Eftirlitspóstar verða við Skóga og við Hvolsvöll. Áhöfn bílsins við Skóga fylgir eftir rýmingu á bæjum undir A Eyjafjöllum. Lögreglumaður og björgunarsveitarmaður frá Hvolsvelli fylgja eftir rýmingu í Fljótshlíð.

Umferð hefur gengið vel, nú er hún meiri til vesturs eftir Suðurlandsvegi. Lögregla er við eftirlit með hraða alla leið til Reykjavíkur. Spáð er éljaveðri í Hellisheiði í nótt og því ekki ráðlegt að vera á ferð nema á bílum búnum til aksturs við slíkar aðstæður.

Umhirða búfénaðar

Yfirdýralæknir og matvælastofnun mælist til þess við bændur að þeir fylgist vel með öskufalli vegna hættu sem búfénaði getur stafað af mengun sem því fylgir.

Vatnsveitur

Þar sem bæir eru með einkavatnsveitur er nauðsynlegt að fylgjast með gæðum vatns. Tekin hafa verið sýni úr neysluvatnslind sem fæðir Vestmannaeyjabæ og reyndist það í lagi.

Upplýsingar um öskufall

Veðurstofan óskar sérstaklega eftir upplýsingum u öskufall frá gosstöðvunum ef þess verður vart. Þetta er mikilvægt vegna ákvarðana varðandi flug innanlands og til og frá landinu.

Fyrirkomulag vaktar í nótt

Aðgerðarstjórn verður við störf á Hellu í nótt. Samhæfingastöðin í Skógarhlíð verður einnig mönnuð. Stöðug vakt er á jarðeðlissviði Veðurstofu á meðan á gosinu stendur.

Almannavarnarnefnd mun næst koma saman að nýju kl. 09:00 í fyrramálið og fara yfir stöðuna þá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert