Ríkisstjórn samþykkir lagafrumvarp um flugvirkjaverkfall

Kristján Möller samgönguráðherra
Kristján Möller samgönguráðherra mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum sem var að ljúka að leggja fram frumvarp á Alþingi um að stöðva verkfall flugvirkja með lögum. Í framhaldi af því hefur Icelandair ákveðið að stefna að því að hefja flug síðdegis í dag um klukkan 16, þó endanlegar ákvarðanir um það verði ekki teknar fyrr en Alþingi hefur lokið meðferð sinni á frumvarpinu.

Kristján Kristinsson, formaður samninganefndar flugvirkja, sagði í samtali við mbl.is að ef lög yrðu sett á verkfall flugvirkja sem starfa hjá Icelandair þá myndi félagið hlýta þeirri ákvörðun.

Þingfundi hefur verið flýtt og hefst hann klukkan 13:15 en til stóð að hann hæfist klukkan 15. Þar verður frumvarpi ríkisstjórnarinnar væntanlega dreift.

Um tvö þúsund farþegar bíða nú eftir flugi og Icelandair leggur áherslu á að hefja starfsemi eins fljótt og unnt er. Farþegar eru hvattir til þess að mæta til flugs tveimur klukkustundum fyrir áætlaðan brottfarartíma. 

Upp úr samningaviðræðum milli flugvirkja og Icelandair slitnaði um áttaleytið í gærkvöldi. Að sögn Kristjáns bar talsvert mikið á milli samningamanna.

„Það munaði líklega um 4 prósentum á því sem við vildum ná fram og því sem þeir buðu. Þeir voru tilbúnir að hækka laun að einhverju marki gegn hagræðingu á móti, eins breytingu á vinnutíma og fleira. Það vorum við ekki tilbúnir að fallast á.“ Kristján segir rekstur Icelandair ganga vel núna og telur að vel sé svigrúm til launahækkana.

Hann segir byrjunarlaun flugvirkja með sveinspróf vera um 318 þúsund í dagvinnu og að launin geti hækkað um 26 og hálft prósent á fimmtán árum. Flugvirkjanám er fimm ára nám og fara flestir til náms í Danmörku þar sem ekki er boðið upp á nám í flugvirkjun hérlendis.

Ríkisstjórn Íslands kom saman í dag
Ríkisstjórn Íslands kom saman í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert