Alþingi bannar nektardans

Lög sem fela í sér fortakslaust bann við því að bjóða upp á nektarsýningar eða að gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru voru samþykkt á Alþingi í dag með 31 atkvæði.

Tveir þingmenn, sjálfstæðisþingmennirnir Árni Johnsen og Ragnheiður E. Árnadóttir, sátu hjá en enginn greiddi atkvæði á móti lögunum.

Þrír þingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingar, óskaði þingheimi til hamingju með samþykkt frumvarpsins og tók fram að með því væri verið að brjóta blað í sögunni.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks sem var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, minnti á að Kolbrún Halldórsdóttir fyrrverandi þingmaður og ráðherra hefði upphaflega flutt málið en Siv tekið við keflinu þegar Kolbrún hætti á þingi.

„Það gleður mig að finna þennan ferska andblæ sem skynja má hér á Alþingi þegar kemur að jafnréttismálum,“ sagði Siv og minnti í því samhengi á nýlegt bann við kaupum á vændi sem og ákvörðun um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Benti hún á að rúmur aðlögunartími væri í frumvarpinu enda taki það ekki gildi fyrr en á miðju sumri. „Samþykkt þessa frumvarps sýnir hve vel Alþingi Íslendinga getur tekið á jafnréttismálum.“

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, óskaði þingheimi til hamingju með samþykkt sína á frumvarpinu. Benti hann á að alþjóðlegar rannsóknir sýndu fram á að nektarstaðir væru gróðrastía mansals, fíkniefnaneyslu og ofbeldis. Þakkaði hann öllum þeim sem barist hafa fyrir lagabreytingunni og nefndi í því samhengi sérstaklega Kolbrúnu Halldórsdóttur.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert