Hvetur SA til áframhaldandi samstarfs

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hvatti Samtök atvinnulífsins til halda áfram samstarfi við stjórnvöld og aðra á grundvelli stöðugleikasáttmálans en samtökin hafa lýst því yfir að þau telji sig óbundin af ákvæðum sáttmálans eftir að svonefnt skötuselsfrumvarp var samþykkt á Alþingi í gær. 

„Stöðugleikasáttmálinn snýst ekki um skötusel. Hann snýst um frið á vinnumarkaði, samstarf um leiðir í ríkisfjármálum, leiðir til að bæta stöðu skuldsettra heimila, leiðir til að auka atvinnu og tryggja endurreisn efnahagslífsins," sagði Jóhanna.

Rætt var um stöðugleikasáttmálann utan dagskrár á Alþingi í dag að ósk Unnar Brár Konráðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Gagnrýndi Unnur Brá og aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar ríkisstjórnina harðlega fyrir að knýja fyrrgreint frumvarp í gegn og bentu einnig á að fjölmörg atriði í stöðugleikasáttmálanum hefðu ekki verið uppfyllt. 

„Er ekki rétt að ríkisstjórnin viðurkenni að hún ræður ekki við þetta verkefni?" sagði Unnur Brá. „Þjóðin þarf á leiðtoga að halda, sem sameinar en sundrar ekki."

Hún vísaði til þeirra ummæla forsvarsmanna ASÍ, að ríkisstjórnin hefði gengið fram af offorsi í þessu máli. Jóhanna sagði, að hafi einhver gengið fram af offorsi í málinu séu það útgerðarmenn. „Það gengur ekki að ein hagsmunasamtök í landinu stilli ríkisstjórn upp við vegg. Við skulum muna, að 70% þjóðarinnar vilja breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og að það séu ekki örfáir kvótaeigendur sem eiga fiskinn í sjónum." 

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að sér þætti hinni ófríðu skepnu skötuselnum gert fullhátt undir höfði, með fullri virðingu fyrir því dýri, ef það ætti að verða til að menn gætu ekki ástundað bráðnauðsynlegt  samstarf á örlagatímum fyrir íslenska þjóð.

„Ég trúi ekki neinu slíku fyrr en ég tek á því og ég tel að verkefni og aðstæður muni færa þessa aðila fljótt saman aftur. Það er hins vegar ekki þannig, að Landssamband íslenskra útvegsmanna hafi neitunarvald um lagasetningu á Alþingi," sagði Steingrímur og bætti við að ekki væri slitnað meira upp úr samstarfi Samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda en svo, að hann hefði komið hlaupandi á þingfund af fundi með Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra SA, þar sem rætt var um starfsendurhæfingu  á grundvelli stöðugleikasáttmálans.

„Það er þannig á Íslandi í dag að við eigum nóg af raunverulegum vandamálum til að glíma þó við séum ekki að rembast við að búa til ný."

mbl.is