Móðir Jörð brást við ákallinu

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi gerði að verkum að Íslendingar og umheimurinn …
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi gerði að verkum að Íslendingar og umheimurinn fengu eitthvað annað að tala um en Icesave og fallna útrás. RAX / Ragnar Axelsson

Daði Halldórsson, almannatengslaráðgjafi sem býr í Álaborg í Danmörku, skrifaði grein í Politiken sem birtist á miðvikudaginn var. Þar ákallar hann Móður Jörð og höfðar til hennar að koma með eitthvað sem beinir sjónum frá föllum efnahagsvíkingum, Icesave og brostinni ímynd.

Daði kvaðst hafa ritað greinina fyrir nokkru og höfðaði þar til Heklu að koma nú með eldgos. Politiken féllst á að birta greinina. Á meðan greinin beið birtingar fór Eyjafjallajökull að gjósa. Daði hafði snör handtök og breytti greininni með tilliti til þess. 

Daði skrifar m.a. í ákalli sínu til Móður Jarðar: 

„Við viljum að þú með  almennilegu gosi minnir okkur og nágranna okkar á að Ísland elur af sér eldfalladætur og hverasyni, ekki penar píur og puntudrengi.  Að það erum við sem enn tölum tungu víkinganna, syngjum söngva þeirra, snæðum mat þeirra og leikum lausum hala í náttúrunni.

Allt þetta finnum við nú, Móðir Jörð.  Og nú er komið að þér, því hvað er það sem móðurmyndin gerir þegar hún sér barn sitt komið í sjálfheldu?  Hún hleypur til af einbeitni, ákveðni og kærleika og leitar lausna.“

Þá rekur Daði misheppnuð útrásarævintýri Íslendinga og hvernig íslenska þjóðin muni aftur finna sinn leista.

mbl.is

Bloggað um fréttina