Segir laun flugvirkja hafa verið ýkt í umræðunni

Flugvirki skoðar vél á Akureyriarflugvelli.
Flugvirki skoðar vél á Akureyriarflugvelli. Kristján Kristjánsson

Guðjón Valdimarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, segir alrangt að flugvirkjar fái 630 þúsund krónur í laun á mánuði og hafi krafist þess að launin hækkuðu um 25%, eins og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum. Sannleikurinn sé sá að flugvirki með sveinspróf fái 313 þúsund krónur í laun á mánuði, sem geti eftir 15 ár hækkað upp í 398 þúsund krónur.

„Í þessu sambandi er rétt að skilgreina hvað felst í hugtakinu laun, en sá skilningur virðist vefjast fyrir ýmsum, meðal annars æðstu handhöfum framkvæmdavalds.  Laun eru það sem þú berð úr býtum eftir 173,33 vinnutíma á mánuði. Tekjur eru heildarlaun þar með talin vaktaprósenta og yfirvinna. Yfirvinna er háð þörfum atvinnurekenda og getur breyst dag frá degi og því ekki hægt að ganga að henni vísri til framfærslu,“ segir í bréfi sem Guðjón sendir á fjölmiðla.

Kröfur flugvirkja í launabaráttu sinni byggjast á því að frá árinu 2008 hefur launavísitala hækkað um 25% og íslenska krónan fallið um að minnsta kosti um 50%, segir í bréfinu. Krafa um 25% hækkun hafi fljótlega verið lækkuð í 15%. Illa gekk hins vegar að ná fram 15% launahækkun. Eftir tuttugu og einn fund með sáttarsemjara hafi flugvirkjum boðist hækkun sem nemur 7,5%, þegar búið er að reikna inn alla breytinguna.
 
„Samningamenn Icelandair höfðu gefið okkur einn og hálfan klukkutíma til að ganga að þessum skilmálum eða þeir myndu lækka tilboð sitt í 5,75 %. Þegar svona var komið kom sáttasemjari með tillögu um 1 % í viðbót til að reyna til þrautar að ná samningum. Icelandair menn samþykktu  en flugvirkjar ekki,“ segir í bréfi Guðjóns.

mbl.is

Bloggað um fréttina