Litlar líkur á frekara gosi

Eyjafjallajökull verður áfram lokaður fyrir umferð en þó eru líkur á því að kvikan brjóti sér leið út annarstaðar taldar litlar. Þetta kom fram á fundi almannavarnanefndar Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu í gær með almannavarnadeild ríkislögreglustjórans og vísindamönnum.

Þá hefur verið ákveðið að aflétta lokun sem verið hefur á umferð inn í Þórsmörk og verður vegurinn þangað opnaður í hádeginu. Vegagerðin lagfærði veginn um helgina en hann er engu að síður aðeins fær breyttum jeppum og öflugum rútum að sögn almannavarna. 
 
Öll umferð fólks um Hrunagil og Hvannárgil (þar sem hraun er að renna) er bönnuð vegna hættu á eitruðu gasi sem þar kann að safnast fyrir og vegna hættu á gufusprengingum.  Vísindastofnanir hafa bannað sínu fólki að fara inn í gilin vegna þessarar hættu.
 
Ástand gönguleiða í Þórsmörk er breytilegt og eru þeir sem hyggja á göngu þaðan hvattir til að setja sig í samband við staðarhaldara í skálum sem þar eru áður en lagt er af stað.
 
Lögregla og björgunarsveitir verða með eftirlit og gæslu í Þórsmörk og við eldstöðina. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert