Um 50 ferjaðir með þyrlum

Fólk var ferjað af Heljarkambi og úr Bröttufönn vegna nýju ...
Fólk var ferjað af Heljarkambi og úr Bröttufönn vegna nýju sprungunnar sem opnaðist rétt fyrir klukkan sjö í kvöld. Kristinn Garðarsson

Um 50 manns fengu far með þyrlum Landhelgisgæslunnar og Norðurflugs af Heljarkambi og Bröttufönn í kvöld. Fólkið var ferjað niður á Morinsheiði þaðan sem það gekk niður í Þórsmörk. TF-LÍF og þyrlur frá Norðurflugi og Þyrluþjónustunni ferjuðu fólkið. Þyrlurnar bíða nú í viðbragðsstöðu við Hótel Rangá og á Skógum.

Nú er búið að ná stjórn á vettvangi við gosstöðvarnar, samkvæmt upplýsingum frá Samhæfingarmiðstöð.  Ferðamönnum við gosstöðvarnar  hefur verið snúið aftur til Skóga og niður í Þórsmörk  og einnig  hefur farartækjum á Mýrdalsjökli verið snúið til baka.

Byggð umhverfis Eyjafjallajökul er ekki talan stafa hætta af nýrri gossprungu á Fimmvörðuhálsi. Magnús Tumi Guðmundsson hefur verið í sambandi við Samhæfingarstöð og telur að um sé að ræða sprungu frá sömu gosrás.   

Rétt fyrir sjö í kvöld opnaðist ný sprunga við gosstöðina á Fimmvörðuhálsi. Svæðið í kringum gosstöðina var rýmt af lögreglu og björgunarsveitarmönnum, sem voru á vakt á svæðinu.

Ferðalöngum á leið að gosstöðinni var snúið frá, að sögn Almannavarna. Ákveðið var að loka vegum í varðúðarskyni inn í Þórsmörk, á Mýrdalsjökul um Sólheimajökul og við Skóga. Samband var haft við skálaverði í Þórsmörk og þeir upplýstir um stöðuna. Ekki er hætta í byggð vegna þessara breytinga á gosstöðinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina