Telja aðgerðir lækna ólögmætar

Landspítali lítur svo á að gagnkvæmur ráðningarsamningur LSH og unglækna sé í fullu gildi og að unglæknum beri skylda til að efna ráðningarsamning sinn. Landspítalinn lítur „ólögmætar þvingunaraðgerðir alvarlegum augum,“eins og segir í tilkynningu spítalans.

Um sé að ræða samningsbundna starfsmenn sem ákveði einhliða að mæta ekki til vinnu og sé slíkt  skýrt brot á kjarasamningi.

Landspítalinn segir vaktabreytingar unglækna og áhrif þeirra vera eftirtaldar:

„1. Vaktabreytingarnar eru nauðsynlegar til að bæta samfellu í meðferð sjúklinga og hefur LSH staðið löglega að breytingunum í alla staði og haft samráð við unglækna um málið a.m.k. frá því sl. haust.

2. Nýtt vaktafyrirkomulag bætir samfellu í meðferð sjúklinga og eflir námstækifæri unglækna.

3. Nýtt vaktakerfi styttir vinnulotur úr 16 klukkustundum í 13 klukkustundir þannig að þær falli betur að alþjóðlegum tilskipunum um vinnutíma, sem gera ráð fyrir 11 klukkustunda hvíldartíma á sólarhring.

4. Aðgerðir unglækna stofna í hættu áralangri uppbyggingu framhaldsmenntunar í læknisfræði á LSH og er ljóst að endurskoða þarf þau mál frá grunni. Ólögleg útganga unglækna úr störfum sínum sýnir einnig að þörf er á gagngerri endurskoðun allra starfa unglækna á LSH.

5. Dagvinnustundum unglækna fjölgar lítillega en á móti halda þeir óskertum launum. Það kemur til vegna þess að endurskoðun vinnutilhögunar hjá öllum heilbrigðisstéttum, vegna kröfu um niðurskurð, miðar að því að aukið hlutfall vinnu á spítalanum fari fram á dagvinnutíma. Í ljósi þeirra stórfelldu niðurskurðaráforma sem LSH stendur frammi fyrir verður að ná fram hagræðingu á spítalanum. Þessi vaktabreyting er liður í þeim aðgerðum.

6. Einhver röskun á starfsemi spítalans gæti orðið tímabundið vegna útgöngunnar en spítalinn mun nýta ýmis úrræði og öryggi sjúklinga verður  tryggt."
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert