Hraun rennur í Hvannárgil ytra

Norðurljósin dönsuðu á himninum yfir gosstöðvunum í gærkvöldi. Myndin er …
Norðurljósin dönsuðu á himninum yfir gosstöðvunum í gærkvöldi. Myndin er tekin í Fljótshlíð þar sem mikil umferð bíla var. mbl.is/hag

Ekki eru neinar vísbendingar um breytingar á eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. Hraunið virðist renna meira til vesturs, ofan í bæði Hvannárgilin og komast þar í snjó eða ís með tilheyrandi gufusprengingum. Nú síðasta klukkutímann hefur vaxið nokkuð í Hvanná og er hún nú mórauð að sjá.

Gunnar B. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að gosóróinn hafi verið nokkuð stöðugur á heildina litið. Heldur minna sé þó um hviður sem verða þegar gufusprengingar verða, en þær komi þó öðru hvoru.

Fáeinir jarðskjálftar voru í gær en engir í nótt. Að sögn Gunnars hefur jarðskjálftum fækkað frá því nýja gossprungan opnaðist fyrir helgi. Þá voru að jafnaði yfir tuttugu skjálftar á sólarhring undir Eyjafjallajökli en eru nú um tíu.

Veltir Gunnar því fyrir sér hvort það geti stafað af því að kvikan eigi greiðari leið upp á yfirborðið eftir að nýja gossprungan myndaðist. Telur hann það líklegra en að dregið hafi úr kviku því ekkert lát virðist á hraunstraumnum.

Gufustrókar sem myndast þegar hraun flæðir fram og nær að narta í snjó eða ís benda til að hraunsstraumurinn sé nú meira til vesturs, ofan í Hvannárgil ytra. Gunnar skýrir það þannig að hraunið sé seigfljótandi og hlaðist upp en skríði svo fram í mismunandi áttir og nái þá í snjó eða ís með tilheyrandi gufusprengingum.

Nú síðasta klukkutímann hefur vaxið nokkuð í Hvanná, að því er fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, og er hún nú mórauð að sjá. Það tengist því að hraun er farið að renna í vestari drög Hvannárgils og nær þar í snjó til að bræða.
Hraunfoss rennur í Hvannárgil í gærkvöldi.
Hraunfoss rennur í Hvannárgil í gærkvöldi. mbl.is/hag
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert