Ákvörðun Álfheiðar „ólíðandi“

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra.
Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi telur það með öllu ólíðandi að stjórnendur ríkisstofnunar geti átt á hættu að vera sakaðir um að hafa brotið gegn góðum starfsháttum með því að leita ráða hjá Ríkisendurskoðun. Þetta segir hann í bréfi til forseta Alþingis vegna áforma heilbrigðisráðherra að áminna forstjóra Sjúkratrygginga.

Ríkisendurskoðandi hefur sent forseta Alþingis bréf í tilefni af því að heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt forstjóra Sjúkratrygginga að hún hyggist áminna hann fyrir meint brot á almennum starfsskyldum ríkisstarfsmanna. Í bréfinu kemur m.a. fram að ríkisendurskoðandi telur að ekkert sé óeðlilegt við það að stjórnendur ríkisstofnana leiti ráða og upplýsinga hjá Ríkisendurskoðun um málefni sem fjalla um meðferð og ráðstöfun á ríkisfé.

Í bréfi ríkisendurskoðanda kemur fram að Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga, átti símtal við ríkisendurskoðanda þar sem einkum var rætt um hvaða skilyrði væri nauðsynlegt að setja í tengslum við þátttöku ríkissjóðs í kostnaði vegna reglugerðar um tannaðgerðir, enda ekki að finna leiðsögn um það að finna í reglugerðinni. Í framhaldi af því hafi Steingrímur Ari sent sér tölvupóst. Um hafi verið að ræða „eðlileg og alvanaleg samskipti milli forstjóra ríkisstofnunar og Ríkisendurskoðunar“.

„Það er að mínu mati með öllu ólíðandi ef stjórnendur ríkisstofnana geta átt á hættu að vera sakaðir um að hafa „brotið gegn góðum starfsháttum og hollustu- og trúnaðarskyldum“ sínum með því einu að leita ráða hjá Ríkisendurskoðun um fjárreiðutengd málefni með vísan til þessa tel ég nauðsynlegt að gera alvarlegar athugasemdir við þær röksemdir sem heilbrigðisráðherra beitir í umræddu bréfi,“ segir í bréfi ríkisendurskoðanda.

Bréf Ríkisendurskoðunar

Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert