Bréfið byggðist á „misskilningi“

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra.
Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Ómar

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra segir að bréf ríkisendurskoðanda byggist á misskilningi. Hún geri ekki athugasemdir við að stofnanir ráðuneytisins leiti eftir ráðgjöf ríkisendurskoðanda, en þeim beri hins vegar fyrst að leita til ráðherra áður en þær leiti til hans.

Ríkisendurskoðandi sendi í gær forseta Alþingis bréf þar sem hann segist gera alvarlegar athugasemdir við áform heilbrigðisráðherra að áminna forstjóra Sjúkratrygginga Íslands fyrir að hafa leitað ráða hjá ríkisendurskoðanda.

Álfheiður svaraði bréfi ríkisendurskoðanda í morgun, en í því segir: „Það er langur vegur frá að heilbrigðisráðuneyti eða undirritaður ráðherra hafi nokkuð við það að athuga að stofnanir ráðuneytisins leiti eftir ráðgjöf frá ríkisendurskoðun eða að embættið afgreiði erindi sem því berast.

Í bréfi mínu til forstjóra SÍ dags. 31. mars s.l. kemur enda skýrt fram að athugsemdirnar lúta ekki að framangreindu atriði, heldur eins og segir orðrétt í bréfinu: 

„Ég tel að þér hafi borið að leita fyrst til ráðuneytis eða ráðherra ef þú taldir fyrrgreindri reglugerð ábótavant að einhverju leyti."   

Í bréfi þínu gætir því misskilnings hvað varðar tilefni bréfs míns til forstjórans. Bréfið byggðist á „misskilningi“, “segir Álfheiður í svarbréfi sínu til ríkisendurskoðanda.

Þær upplýsingar fengust úr heilbrigðisráðuneytinu að Álfheiður vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Í bréfinu sem Álfheiður sendi forstjóra Sjúkratrygginga 31. mars segir orðrétt: „Ég tel að þér hafi borið að leita fyrst til ráðuneytis eða ráðherra ef þú taldir fyrrgreindri reglugerð ábótavant að einhverju leyti. Með því að leita ekki beint til ráðuneytisins hafir þú brotið gegn góðum starfsháttum og hollustu- og trúnaðarskyldum þínum og hafi það haft í för með sér trúnaðarbrest milli þín og ráðherra.“

Forstjóri Sjúkratrygginga hefur frest til 13. apríl til að gera athugasemdir við bréf ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert