Þetta er mjög erfitt

Sigurður Heiðar vandaði sig við skotin nú síðdegis þótt hann …
Sigurður Heiðar vandaði sig við skotin nú síðdegis þótt hann hefði spilað í rúma tvo sólarhringa samfellt. mbl.is/Ómar

„Þetta er mjög erfitt," sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson, sem ásamt Inga Þór Hafdísarsyni tókst síðdegis það ætlunarverk að slá heimsmetið í pool. Þá höfðu þeir staðið við ballskákarborðið í nærri 53½ stund samfleytt.

Þeir ætla hins vegar ekki að láta þar við sitja heldur spila til hádegis á morgun eða samtals í 3 sólarhringa.

Sigurður Heiðar viðurkenndi í stuttu samtali við mbl.is, að skotin væru aðeins farin að geiga, „svona inn á milli," nú þegar komið væri fram á þriðja sólarhringinn en viðstaddir hefðu þó haft á því orð, að mesta furða væri hve þeim tækist að hitta kúlurnar.

Þeir Sigurður Heiðar og Ingi Þór leggja þessa maraþonspilamennsku á sig til að afla fé til MS-félags Íslands. Félagi þeirra, Brynjar Valdimarsson, greindist nýlega með MS-sjúkdóminn, og gripu þeir því til þessa ráðs til að vekja athygli á sjúkdómnum.

Hægt er að heita á þá Sigurð og Inga Þór í síma 568-8620 en allur ágóðinn mun renna til styrktar MS-félagi Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina