Pálmi segir stefnu tilefnislausa

Pálmi Haraldsson.
Pálmi Haraldsson.

Pálmi Haraldsson segir að stefna á hendur honum og fleirum frá slitastjórn Glitnis sé með öllu tilefnislaus og fram á það verði sýnt í dómssal. Segir hann m.a. að milljarður króna, sem í stefnunni segir að runnið hafi til hans presónulega hafi farið til greiðslu skuldbindinga Fons hf. hjá bankanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pálma vegna stefnu slitastjórnar Glitnis banka á hendur honum, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og fjórum fyrrverandi starfsmönnum Glitnis. Krefst bankinn 6 milljarða króna í skaðabætur af sexmenningunum vegna lánveitingar til félagsins FS38, sem var dótturfélag Fons. 

Yfirlýsing Pálma er eftirfarandi:

Í stefnu slitastjórnar Glitnis banka hf. á hendur mér og fleirum kemur meðal annars fram að ég hafi náð einum milljarði út úr Glitni banka hf.  fyrir mig persónulega, nánast með blekkingum.

Hið rétta er að lánið var veitt Fons hf., fór til greiðslu skuldbindinga Fons hf. við Glitni banka hf. og bætti þar með tryggingastöðu bankans.  Ég hagnaðist ekki persónulega á þessum viðskiptum, heldur var einn milljarður notaður til að greiða inn á lán Fons hf. við Kaupthing Bank  í Luxembourg.  Hefði slitastjórn Glitnis banka hf skoðað bókhald Fons hf., eins og gera verður kröfu um, hefði sést, svart á hvítu að títtnefndur milljarður var færður á reikning Fons hf. en ekki minn persónulega reikning.

Vert er að taka fram í þessu sambandi, að bústjóri Fons hf. hefur undir höndum allt bókhald félagsins.  Þar hefði slitastjórn Glitnis banka hf. getað fengið réttar upplýsingar áður en stefnan var gefin út.  Þeim hefði því verið í lófa lagið að fá öll gögn en ekki bara sum áður en þeir hófust handa.  Þegar slíkum vinnubrögðum er beitt,  getur umræðan aldrei orðið sannleikanum samkvæmt.

Mér finnst alvarlegt að slitastjórn Glitnis banka hf. byggi á slíkum málatilbúnaði.   

Þá vil ég  benda á að þrátt fyrir að stefnan komi  frá slitastjórn Glitnis banka hf. er hún með öllu tilefnislaus.  Fram á það verður sýnt í dómsal.    
 
Að öðru leyti mun ég ekki tjá mig frekar um þetta  mál í fjölmiðlum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert