Íslandslán ekki á dagskrá AGS

ABC Nyheter segir að fulltrúar Breta, Hollendinga og fulltrúi Norðurlanda …
ABC Nyheter segir að fulltrúar Breta, Hollendinga og fulltrúi Norðurlanda og Eystrasaltslanda krefjist þess í AGS að gengið verði frá Icesave áður en lán verði veitt. Reuters

ABC Nyheter kveðst hafa fengið það staðfest í höfðustöðvum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í Washington að afgreiðsla láns til Íslands sé alls ekki á dagskrá stjórnar AGS. Sagt er að Bretar, Hollendingar og fulltrúi Norðurlanda og Eystrasaltslanda krefjist þess að fyrst verði að semja um Icesave.

Norska fréttastofan segir að stjórn AGS haldi daglega fundi til að ákveða um stuðning við þjóðir í vanda. Málsskjöl þurfi að liggja fyrir að minnsta kosti þremur vikum fyrr. Ekkert bendi til þess að skjölum um málefni Íslands verði dreift og að þau komist á dagskrá stjórnarinnar í bráð.

Fréttastofan rifjar upp að í janúar síðastliðnum hafi átt að liggja fyrir samþykki fyrir greiðslu nýs hluta láns AGS. Af því hafi ekki orðið.  Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri AGS, hafi varpað ábyrgðinni á að ekki hafi orðið af því á stjórn AGS.

Þrátt fyrir að norska ríkisstjórnin hafi lýst sig meðmælta afgreiðslu annars hluta lánsins til Íslands leiki lítill vafi á að Norðmenn séu í minnihluta þjóðahóps Norðurlanda og Eystrasaltslanda sem á fulltrúa í stjórn AGS. Fulltrúi þeirra, sem nú er Dani, styðji líklega Breta og Hollendinga í að nota AGS til að „þvinga Íslendinga á hnén í Icesave-stríðinu“ eins og fréttastofan orðar það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert