Eldgosinu að ljúka?

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi í rénun?
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi í rénun? Rax / Ragnar Axelsson

„Nú er óróinn orðinn nokkurn veginn eins og hann var fyrir gos, sem sagt rói. Eru lok gossins að nálgast? Eða er því jafnvel lokið?" spyr Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur í pistli á vefsíðu sinni í kvöld. Þar birtir Haraldur línurit sem sýnir óróann á Fimmvörðuhálsi frá því fyrir gos.

Á myndinni hér til hliðar, sem byggir á gögnum frá jarðskjálftastöðinni á Goðabungu, eru mælingar frá í dag lengst til hægri og lengst til vinstri frá því fyrir gos. Haraldur spyr sig sem fyrr segir þeirrar spurningar hvort gosinu á Fimmvörðuhálsi sé lokið, en ekki megi gleyma því að eldgos geti tekið sig upp aftur. Einnig sé vert að benda á að jarðskjálftavirkni á svæðinu sé í lágmarki, einn skjálfti í dag og einn lítill í gær.

Aftakaveður hefur verið á gosstöðvunum um helgina, enda segir Haraldur skyggnið vera svo slæmt að ekkert marktækt sjáist á vefmyndavélum.

Graf sem sýnir óróann í Goðabungu frá því fyrir gos
Graf sem sýnir óróann í Goðabungu frá því fyrir gos
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við eldstöðina á Fimmvörðuhálsi.
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við eldstöðina á Fimmvörðuhálsi. Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert