Fundað um stuðning ESB við byggðaþróun

YVES HERMAN

Utanríkisráðuneytið gerir ráð fyrir að á annað hundrað manns muni sækja ráðstefnu um stuðning Evrópusambandsins við atvinnu- og byggðaþróun í aðildarríkjunum sem haldin verður í Salnum Kópavogi nk. fimmtudag og föstudag.

Að ráðstefnunni standa utanríkisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Fer hún fram á ensku og er aðgangur ókeypis. Verður ráðstefnan send beint út á vef utanríkisráðuneytisins.

Meðal umfjöllunarefna er hlutverk stuðningskerfa ESB á sviði byggðamála og atvinnuuppbyggingar, s.s. innan sjávarútvegs og landbúnaðar, með áherslu á nýsköpun, menntun og markvissa áætlanagerð. Beint verður sjónum að svæðisbundnum samstarfsáætlunum og stefnu ESB um atvinnuþróun, félagslega samstöðu og uppbyggingu mannauðs í dreifbýli og þéttbýli, að því er segir í fréttatilkynningu ráðuneytisins.

Þá mun framkvæmdastjórn ESB fjalla um markmið, uppbyggingu og verkefni Byggðaþróunarsjóðs Evrópu, Félags- og mannauðssjóðs Evrópu, Dreifbýlisþróunarsjóðs evrópsks landbúnaðar og Evrópska fiskveiðisjóðsins, auk þess að greina frá þeirra aðstoð sem umsóknarríkjum stendur til boða.

Fyrirlesarar frá Möltu, Finnlandi, Danmörku og Eistlandi fjalla um reynsluna af þeim stuðningi sem þessi ríki hafa notið. Einnig verður horft til framtíðar en framkvæmdastjórn ESB kynnti nýverið tillögur að stefnu til ársins 2020 um sjálfbæran hagvöxt fyrir alla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert