Bankarnir réðu túlkun reglna um stórar áhættur, ekki FME

Eyþór Árnason

Landsbankinn hélt því fram í apríl 2007 að Björgólfur Thor Björgólfsson og lyfjafyrirtækið Actavis Group hf. væru ekki fjárhagslega tengdir aðilar, í skilningi reglna um stórar áhættur bankans. Björgólfur átti þá 38,84% hlut í Actavis. Á sama tíma fóru Landsbankinn sjálfur og Burðarás hf. (síðar Straumur-Burðarás) með 8,5% hlut í Actavis.

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að bankarnir túlkuðu þröngt reglur Evrópusambandsins um stórar áhættur, sem innleiddar voru hér á landi og Fjármálaeftirlitið leyfði þeim að komast upp með það. Samkvæmt reglunum máttu bankar ekki stofna til áhættu gagnvart einum viðskiptavini og aðilum honum tengdum, umram 25% af eiginfjárgrunni bankans.

Áhættuskuldbinding Landsbankans gagnvart Björgólfi nam þá 51,3 milljörðum króna að minnsta kosti, eða 49,7% af eigin fé bankans.

Landsbankinn svaraði aðfinnslum FME á þann veg að Björgólfur og tengdir aðilar færu ekki með yfirráð í Actavis og að ekki væri hætta á smiti á fjárhagslegum erfiðleikum milli þeirra, vegna sterkrar fjárhagsstöðu Björgólfs.

FME gaf eftir að svo stöddu og leyfði bankanum að færa skuldbindingarnar aðgreindar í næstu skýrslu til stofnunarinnar um stórar áhættur. FME tók fram að það yrði ekki leyft næst. Hins vegar var ekki staðið við það og í skýrslu fyrir júní sama ár, um stórar áhættur, voru skuldbindingarnar enn aðgreindar.

FME fylgdi málinu ekki frekar eftir og féll það niður í september 2007, þegar Actavis Group hf. var tekið yfir og endurfjármagnað.

Eins fór með áhættu Kaupþings gagnvart Baugi Group, Mosaic Fashions og F-Capital ehf. Þeir aðilar voru allir mjög tengdir og námu skuldbindingarnar 31% af eigin fé bankans í júní 2007. FME gerði athugasemdir við þetta. Kaupþing hundsaði þær og hélt áfram að skila skýrslum með áhættum vegna þessara félaga aðgreindum, alveg þar til bankinn fór á hausinn í október 2008.

Þegar Glitnir féll hafði FME ekki beitt valdheimildum sínum til að knýja fram breytingar á útlánaáhættu bankans. Engu að síður voru skuldbindingar bankans gagnvart FL Group (síðar Stoðum) og Stími ehf. yfir mörkum, en bankinn tiltók þær aðskildar í skýrslum um stórar áhættur. Hið sama gilti um félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og áhættur vegna Baugs Group. Landsbankinn tengdi ekki heldur saman áhættur áþau í skýrslum árið 2007.

Þetta kemur fram í 7. bindi skýrslunnar, kafla 21., blaðsíðu 186-188.

Í nánari ályktunum rannsóknarnefndarinnar um afmarkaða þætti, á blaðsíðu 268-269, segir að starfsreynsla starfsmanna FME hafi verið afar lítil og starfsaldur farið ört lækkandi á þessum tíma. Meðalstarfsaldur á lánasviði og verðbréfasviði stofnunarinnar hafi verið, við lok tímabilsins sem nefndin skoðar, aðeins þrjú til fjögur ár.

Í þeim skýrslum sem gerðar hafi verið eftir vettvangsheimsóknir og nefndin hefur kynnt sér, skorti í mörgum tilvikum að FME tæki á rökstuddan hátt af skarið í niðurstöðum sínum. Þetta eigi ekki síst við í málum þar sem skýra þurfti hugtökin ,,yfirráð" og ,,fjárhagsleg tengsl" við beitingu reglna um stórar áhættur.

Þegar hins vegar hafi verið tekið af skarið, hafi það stundum verið látið nægja að senda skriflegar athugasemdir til fjármálafyrirtækisins án þess að málinu væri þá jafnframt komið í lögformlegan farveg.

Enn fremur segir í sama kafla skýrslunnar að þess séu dæmi að mál sem snertu ætluð brot á reglum um stórar áhættur hafi verið lengi í óformlegum farvegi á milli FME og bankanna. Ýmist hafi þau verið látin liggja óhreyfð eða bréfaskipti staðið yfir við fjármálafyrirtækin, þar sem FME hafi aðeins reynt að færa mál til betri vegar með óformlegum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert