Gleymdu að opna bakhýsið

Ingimundur Friðriksson, Eiríkur Guðnason og Davíð Oddsson, fyrrverandi bankastjórar Seðlabankans.
Ingimundur Friðriksson, Eiríkur Guðnason og Davíð Oddsson, fyrrverandi bankastjórar Seðlabankans.

Síðdegis sunnudaginn 28. september 2008 funduðu  ráðherarnir Geir H. Haarde og Árni M. Mathiesen, ráðuneytisstjórarnir Baldur Guðlaugsson og Bolli Þór Bollason  og Tryggvi Þór Herbertsson, efnahagsráðgjafi, með bankastjórum Seðlabankans í fjármálaráðuneytinu um málefni Glitnis.

Við skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis sagði Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, að menn hefðu ákveðið að hittast í bakhýsi á vegum fjármálaráðuneytisins í Lindargötu. Síðan sagði Davíð:

„Og þegar við komum þangað bankastjórarnir þá er nú svo slysalegt hjá fjármálaráðuneytinu að þeir hafa gleymt að opna hurðina, þannig að við erum þarna læstir úti, það endaði með því að fréttamenn eru komnir og sjá okkur vera að paufast við að reyna að fara inn bakdyramegin. Þetta var nú allt eins slysalegt hvað þetta varðaði eins og verða kann.“

 Aðspurður hvort Seðlabankinn byggi yfir áætlun um fyrirkomulag á fundarhöldum svo koma mætti í veg fyrir að utanaðkomandi aðilar, s.s. fjölmiðlar, hefðu veður af málum, svaraði Davíð því til að svo væri ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina