„Skynjuðu að dansinum var að ljúka“

Stjórnendur bankanna vissu árið 2007 að verulega var sigið á ógæfuhliðina og að lítið þyrfti að gerast til að kerfið hryndi til grunna. Þetta hafi m.a. birst í því að bankamenn voru að reyna að bjarga eigin skinni. Þetta segir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Í skýrslunni segir að reynt hafi verið með öllum ráðum að halda uppi hlutabréfaverði en á sama tíma hafi lykilfólk í bönkunum reynt að bjarga eigin skinni. Tekið er sem dæmi að Lárus Welding, bankastjóri Glitnis, hafi hreinsað 318 milljónir út af reikningi sínum og farið með peningana til útlanda. Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbanka og Elín Sigfúsdóttir, lykilsstjórnandi í Landsbanka, hafi í byrjun október 2008 fært eignir lífeyrissjóða sinna í ríkisskuldabréf. Enn aðrir hafi fært húseignir á nöfn maka sinna. „Menn skynjuðu að dansinum var að ljúka.“

„Í bönkunum og viðskiptalífinu var sú menning ríkjandi að reyna að bjarga sjálfum sér með öllum ráðum. Margar fléttur á fjármálamarkaði miðuðust við að draga úr áhættu þeirra sem stofnuðu til hennar. Þeir sem aldir eru upp við þann hugsunarhátt verða samfélaginu enn hættulegri þegar harðnar á dalnum. Enda kemur fram í ofangreindri lýsingu að áhættan var í auknum mæli færð heim til Íslands og þaðan yfir á almenning eftir því sem nær dró bankahruninu. Þetta er raunar lærdómur fjármálakreppunnar víða um heim, þegar herðir að færast vandamálin heim. Síðan bendir hver á annan. Af þessu yfirliti sést að bankarnir brugðust við öllum merkjum um veikleika með því að setja upp pótemkíntjöld til að draga athyglina frá þeim erfiðleikum sem að steðjuðu.

Stjórnendur viðskiptabankanna hafa haldið því fram að ákvörðun Seðlabanka og stjórnvalda á Glitnishelginni hafi ráðið úrslitum. Ábyrgðin sé annarra. Af ofangreindri lýsingu er þó ljóst að stjórnendur voru meðvitað að forða sér og sínum eignum og það færði fjárhagslega ábyrgð yfir á aðra og á endanum almenning í landinu. Þeim virðist hafa verið fullljóst þegar leið á árið 2007 að verulega var sigið á ógæfuhliðina og lítið þurfti til að kerfið hryndi til grunna. Við tók hrunadans sem stóð þangað til Lehman-bankinn féll í Bandaríkjunum. Með því hvarf endanlega allt traust á fjármálamörkuðum og íslensku bankarnir stóðu uppi berskjaldaðir. Eins og ítrekað hefur komið fram var enginn fær um, eða hafði kjark til, að grípa í taumana fyrr. Hugsanlega vildi enginn bera ábyrgð á því að fella svo brothætt kerfi og hafi því ómeðvitað verið beðið eftir að höggið kæmi að utan. Stjórnkerfið var ráðvillt líka,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert