Óróinn bendir til að eldgos sé hafið

Magnús Tumi Guðmundsson í eftirlitsflugi yfir Mýrdalsjökli.
Magnús Tumi Guðmundsson í eftirlitsflugi yfir Mýrdalsjökli. mbl.is/Rax

Gosóróinn í Eyjafjallajökli bendir til að gos sé hafið. Sé svo er það væntanlega neðan jökuls því annars væru vatnavextir hafnir á svæðinu. Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, sem er staddur á Veðurstofunni ásamt öðrum sérfræðingum.

Hann segir sérfræðinga Veðurstofunnar vera að rýna í gögn af jarðskjálftamælum. „Þeim finnst að óróinn núna bendi til að gos sé hafið en dimmt er á svæðinu og þoka. Sé gos hafið, og búið að standa í klukkutíma, er það væntanlega neðan jökuls því annars væri komið vatn. En við erum ennþá í nóttinni og þokunni.“

Magnús Tumi segir ekki stórra hlaupa að vænta sé eða verði, gosið af svipaðri stærð og eldgosið á Fimmvörðuhálsi. Þá sé frekar von á vatnavöxtum líkt og gerist í vorleysingum.

Eldgosinu á Fimmvörðuhálsi er líklega lokið. „Það bendir flest til þess að þó lokað hafi fyrir á Fimmvörðuhálsi sé þrýstingur ekki að minnka, kvikan sé að leita útrásar annars staðar.“

 Þekkir þú til? Fannstu skjálfta? Býrðu á svæðinu? Vinsamlega hafðu samband  á netfrett@mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert