Sigdæld myndast í jöklinum

Radarmynd af Eyjafjallajökli þar sem sjá má gígopið á jöklinum. …
Radarmynd af Eyjafjallajökli þar sem sjá má gígopið á jöklinum. Myndin var tekin með eftirlits- og leitarratsjá TF-Sifjar.

Jarðvísindamenn í TF SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar sem er á flugi yfir Eyjafjallajökli, segja að stór sigdæld sé umhverfis gíginn sem er uppi á hábungu jökulsins.

Ekki næst símasamband við jarðvísindamennina, þar sem þeir eru um borð í flugvélinni, en að sögn Hrafnhildar Brynju Stefánsdóttur, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslu Íslands, sem verið hefur í samband við vísindamennina giskuðu þeir á að ummál dældarinnar hafi fyrir um klukkutíma verið 1 km x 600 metrar, en dældin stækkar ört. 

Ekki hefur enn sést í eld eða sprungu, enda er skýjað á svæðinu, en jarðvísindamenn telja að sprungan sé um 500 metrar.  TF SIF er búin tækjum sem sjá í gegnum ský.

„Það er gjóskufall til austurs og nær það nú að Fimmvörðuhálsi,“ segir Hrafnhildur. Bendir hún á að gosmökkurinn sé nú kominn í 22 þúsund feta hæð sem sé mikil breyting á stuttum tíma því fyrir tæpum tveimur klukkutímum mældist mökkurinn í um 12-14 þúsund feta hæð. 

„Allt flug við gosstöðvarnar er bannað austan við Hvolsvöll á meðan verið  er að kortleggja öskufallið. Það er stórhættulegt fyrir smáflugvélar að fljúga þarna, enda er öskufall stórhættulegt fyrir svona litar vélar þar sem þetta er eins og steypa,“ segir Hrafnhildur. 

Að sögn Hrafnhildar er búist við því að flugvél Landhelgisgæslunnar lendi á næsta klukkutímanum, en þá tekur við fundur almannavarna í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Þann fund sitja auk jarðvísindamannanna úr fluginu almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, fulltrúar frá Landhelgisgæslunni, slökkviliðinu, Rauða kross Íslands, Landspítalanum, Vegagerðinni, Landsbjörg og Flugstoða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina