Áttu vísan aðgang að endurfjármögnun

Peningamarkaðssjóðir bankanna fjárfestu að meginstefnu í verðbréfum og innlánum viðkomandi banka, eða félögum sem rannsóknarnefnd Alþingis telur tengjast bönkunum eða eigendum þeirra.

Áhættustjórnun var verulega ábótavant í sjóðunum og að því marki sem raunverulegri fjárfestingarstefnu var fyrir að fara var henni í mörgum tilvikum ekki fylgt.

Þá var í upplýsingum til almennings villt um varðandi þá áhættu sem raunverulega fólst í því að fjárfesta í sjóðunum. Þá var eftirliti Fjármálaeftirlitsins með sjóðunum ábótavant að mati nefndarinnar.

Sjóður 9 var stærsti peningamarkaðssjóður Glitnis við bankahrun. Í rannsóknarskýrslunni segir að sjaldgæft hafi verið að mánaðarlokastaða sjóðsins væri í samræmi við yfirlýsta fjárfestingarstefnu. „Í raun má því segja að frá og með árinu 2006 hafi raunverulegt eignasafn sjóðsins aldrei endurspeglað svokallaða fjárfestingarstefnu,“ segir í skýrslunni.

Líkt og margir aðrir peningamarkaðssjóðir jók Sjóður 9 mjög hlut skuldabréfa eignarhaldsfélaga í eignasafni sínu frá árinu 2006 og í lok ágústmánaðar námu verðbréf slíkra félaga 86 prósentum af heildarverðbréfaeign sjóðsins.

Sjóðurinn fjárfesti grimmt í bréfum móðurfélagsins, þ.e. Glitnis, og félögum tengdum honum, þ.ám. Baugi Group, FL Group, Milestone og Högum. Hlutfall bréfa þessara félaga af verðbréfaeign sjóðsins var um fimmtán prósent fram til ársins 2006, en eykst mjög hratt þar til það er orðið 73 prósent um mitt ár 2007.

Sjá ítarlegri umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert