Vatnsborð hækkað um 1 metra

Vatn flæðir undan Gígjökli í lón norðan við Eyjafjallajökul sem …
Vatn flæðir undan Gígjökli í lón norðan við Eyjafjallajökul sem sjá má til vinstri á myndinni. mbl.is/Baldur Sveinsson

Vatnsborð Markarfljóts hefur á stuttum tíma hækkað um einn metra við gömlu Markarfljótsbrúna. Eldgos er augljóslega hafið undir Eyjafjallajökli og vatn flæðir undan Gígjökli. Það bendir til þess að það gjósi í toppgíg jökulsins. Vatnið kemur undan Gígjökli í lón norðan við Eyjafjallajökul.

Gunnar B. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni, segir vatn hafa farið að flæða norður undan Gígjökli um kl. 7 í  morgun.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að vatnsrennsli  hafi aukist í Markarfljóti við gömlu Markarfljótsbrúnna og hefur vatnsyfirborð hækkað um 84 cm á skömmum tíma.  Rennsli hefur einnig aukist í Lóninu sem kemur frá Gígjökli. 

Ferðamenn staddir í Þórsmörk eru beðnir að halda kyrru fyrir.

Flugvélar á flugi suður af landinu hafa tilkynnt greinilega stróka yfir Eyjafjallajökli sem fara í 5000 feta hæð.  Flugvél Landhelgisgæslunnar er á flugi með vísindamenn á svæðinu og frekari upplýsinga er að vænta von bráðar.

Gosið verið að malla undir jöklinum

„Við vitum ekki nákvæmlega hvar gosið kemur upp í jöklinum en þar sem vatnið kemur undan Gígjökli er varla vafi á öðru en að það gjósi í toppgígnum.“

Ofan á toppgíg Eyjafjallajökuls er 200 m þykk íshella. „Gosið hefur því verið að malla undir jöklinum í nótt og brætt ísinn,“ segir Gunnar.

 Ekkert vatn kemur suður undan jöklinum. Gufumekkir hafa sést frá fjallinu frá því um kl. 6 í morgun.

Spurður hvort gos nú í Eyjafjallajökli komi á óvart segir Gunnar: „Eldfjöll eru ólíkindatól - við erum alltaf að læra nýtt um hegðun þeirra. Við höfðum svo sem enga reynslu af mælingum á gosi á þessum stað fyrr en það fór að gjósa á Fimmvörðuhálsi. Við lærum því mikið um leið og þetta er að gerast.“

 Gunnar segir hraun ekki eiga eftir að flæða, sé rétt að gosið sé í toppgígnum. Um gos undir jökli verði að ræða líkt og vel er þekkt í Vatnajökli.

Markarfljót í ham. Myndin er úr safni.
Markarfljót í ham. Myndin er úr safni. mbl.is/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert