Segja Ísland ætla að greiða með vöxtum

Hollenska ríkisstjórnin er ekki andvíg því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn afgreiði aðra útgreiðslu á láni sjóðsins til Íslands. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg fréttastofunnar. Stjórn AGS mun ræða lán til Íslands á fundi sínum í dag.

Hefur Bloomberg eftir heimildum sem þekkja vel til samningaviðræðna Íslendinga við Hollendinga og Breta um Icesave að ástæðan fyrir því að hollensk stjórnvöld séu ekki andvíg lánafyrirgreiðslunni sé sú að Ísland hafi heitið því að ná samkomulagi við Hollendinga og Breta. Því leyfi Hollendingar Íslendingum að njóta vafans.

Kemur fram í fréttinni að í viljayfirlýsingu frá Íslandi sé því heitið að endurgreiða lánin til Hollendinga og Breta með vöxtum. Er þetta haft eftir heimildarmanni sem biður um nafnleynd þar sem þessar upplýsingar eru ekki orðnar opinberar.

mbl.is