CCP fékk Útflutningsverðlaun

Vignir Jóhannsson, myndlistarmaður, og Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, virða …
Vignir Jóhannsson, myndlistarmaður, og Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, virða fyrir sér verðlaunagripinn.

CCP hf. var í dag veitt Útflutningsverðlaun forseta Íslands á Bessastöðum. Hilmar Veigar Pétursson forstjóri veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins.

„CCP er veitt verðlaunin fyrir að hafa náð einstökum árangri á heimsvísu í þróun og markaðssetningu fjölþátttöku tölvuleikja. Fyrirtækið fer fremst í fylkingu fyrirtækja hér á landi sem saman mynda nýja tegund framleiðsluiðnaðar, sem byggir starfsemi sína á sköpunargleði, lifandi hugsun, háþróaðri tölvutækni og viðskiptalegu innsæi,“  segir í fréttatilkynningu.

„Fyrsti fjölþátttökuleikur fyrirtækisins kom út í maí 2003 og ber heitið EVE-Online. Frá þeim tíma hefur fyrirtækið stöðugt stækkað og dafnað og er EVE- Online enn aðalframleiðsluvara fyrirtækisins og eru um 350.000 áskrifendur að leiknum.

Starfsstöðvar CCP eru nú í fjórum löndum, hér á landi, í Kína, Bandaríkjunum og Bretlandi. Starfsmenn um síðustu áramót voru 451 og hafði fjölgað um tæplega 100 á árinu. Starfsfólkið kemur frá um 20 þjóðlöndum og samanstendur af kraftblöndu listamanna, vísindamanna, sérfræðinga í hugbúnaðargerð og stjórnenda.

Velta CCP á síðasta ári var rúmlega 55 milljónir dollara eða tæpir 7 milljarðar íslenskra króna og hagnaður fyrirtækisins var rúmar 6 milljónir dollara eða rúmlega 700 milljónir íslenskra króna.“

CCP fær sérhannaðan verðlaunagrip og skjal, auk þess sem verðlaunahafi fær leyfi til að nota merki verðlaunanna á kynningarefni sitt í fimm ár frá afhendingu. Vignir Jóhannsson myndlistarmaður gerði verðlaunagripinn í ár. Merki Útflutningsverðlaunanna er hannað af Hilmari Sigurðssyni.

Verðlaunagripurinn er úr steypu og gleri og heitir Ljóshverfing. Honum er þannig lýst af listamanninum: 

„Ljósið kemur upp ljósleiðarann og dreifist í glerforminu til áhorfenda. Ljósið býr til form sem er breytilegt frá hverju sjónarhorni fyrir sig. Ljósleiðnin sjálf er eins frá öllum hliðum en dreifingin ljóssins ójöfn, misjöfn og einstaklingsbundin. Við sjáum ljósið streyma og dreifast, miðlast og skapa nýjan vettvang, tilgang og lífsstíl. Þannig verður tengingin milli listaverksins og hugmynda fyrirtækisins beintengd.“

Útflutningsverðlaun forseta Íslands eru veitt til viðurkenningar „fyrir markvert framlag til eflingar útflutningsverslun og gjaldeyrisöflun íslensku þjóðarinnar.

Úthlutunarreglur kveða á um að verðlaunin skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá  Alþýðusambandi Íslands, Ingjaldur Hannibalsson frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Friðrik Pálsson frá Landsnefnd Alþjóða verslunarráðsins, Örnólfur Thorsson frá embætti forseta Íslands og Valur Valsson frá Útflutningsráði Íslands, en Útflutningsráð ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina