Staðfestir millifærslu frá FL

Ragnhildur Geirsdóttir.
Ragnhildur Geirsdóttir. mbl.is/Golli

Ragnhildur Geirsdóttir segir, að ástæða þess að hún ákvað að láta af störfum sem forstjóri FL Group á sínum tíma hafi fyrst og fremst byggst á því að hún taldi sig ekki eiga samleið með Hannesi Smárasyni, þáverandi stjórnarformanni, og stjórn félagsins, sem voru fulltrúar stærstu eigenda þess.

Ragnhildur gerir í yfirlýsingu, sem hún sendi frá sér í dag, grein fyrir aðdranda þess að hún hætti störfum sem forstjóri FL Group árið 2005 en fjallað er um þau mál í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  Þar staðfestir hún m.a., að 3 milljarðar króna hafi verið millifærðir frá FL Group til Kaupþings í Lúxemborg í apríl  þetta ár og að á útprentun úr Excel-skjali frá Kaupþingi í Lúxemborg hafi komið fram upplýsingar sem mátti skilja sem svo að peningarnir hefðu á einhverjum tímapunkti, í einhverjum tilgangi, verið millifærðir á eignarhaldsfélagið Fons.

Þá kemur einnig fram í yfirlýsingu Ragnhildar, að hún hafi þekkt nokkuð til dönsku flugfélaganna Sterling og Maersk, sem FL Group keypti síðar þetta ár, eftir að hafa starfað hjá Flugleiðum/FL Group í 6 ár. Hefði hún verið eindregið þeirrar skoðunar að félögin ættu bæði í verulegum rekstrarvanda og væru lítils virði.

Segir Ragnhildur, að henni hafi því ekki þótt skynsamlegt fyrir FL Group að kaupa sameinað félag Sterling og Maersk, allra síst þegar horft var til þess að kominn var verðmiði á félagið upp á tæpa 15 milljarða króna, „sem var að mínu mati óskiljanleg verðhækkun á þeim fáu mánuðum sem Sterling var í eigu Fons," segir Ragnhildur í yfirlýsingunni.

Yfirlýsing Ragnhildar er eftirfarandi:

Starfslok mín hjá FL Group í október 2005 eru orðin opinbert umfjöllunarefni í kjölfar þess að rannsóknarnefnd Alþingis birti skýrslu sína um aðdraganda bankahrunsins og að æru minni er vegið á þann hátt að það hlýtur að kalla á viðbrögð af minni hálfu. Gefið er í skyn, og sum staðar jafnvel beinlínis fullyrt, að ég hafi á sínum tíma fengið greitt fyrir að þegja, þ.e.a.s. að tjá mig ekki um ástæður brotthvarfs míns frá FL Group. Með slíkri umfjöllun er vegið að æru minni og ég tel því nauðsynlegt að gera grein fyrir staðreyndum málsins. Dylgjur og ásakanir, sem komið hafa fram, eiga sér ekki stoð í veruleikanum og vísa  ég þeim algjörlega á bug.

Staðreyndir málsins eru þær að enginn starfslokasamningur var gerður við mig þegar ég lét af störfum hjá félaginu. Ég fékk hins vegar greiðslur, eftir að ég lét af störfum, í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings þar sem kveðið var á um að ég fengi greidd laun á tólf mánaða uppsagnarfresti og síðan greiðslur vegna ráðgjafar í þágu félagsins í 3 ár. Greiðslur vegna starfslokanna voru sem sagt í einu og öllu í samræmi við ráðningarsamning minn við FL Group. Rétt er að taka fram að ekki voru gerðir sérstakir samningar við mig um að ég myndi ekki tjá mig um málefni félagsins eða að ég fengi sérstakar greiðslur umfram það sem ég átti rétt á samkvæmt ráðningarsamningi mínum.

Ástæða þess að ég ákvað að láta af störfum sem forstjóri félagsins byggðist fyrst og fremst á því að ég taldi mig ekki eiga samleið með stjórnarformanni og stjórn félagsins, sem voru fulltrúar stærstu eigenda þess.

Við starfslok mín ákvað ég að ræða þau ekki við fjölmiðla. Fyrir því voru fyrst og fremst tvær meginástæður. Í fyrsta lagi var ákvörðun mín um að láta af störfum persónuleg og byggðist á reynslu minni af samstarfi við stjórnarformann félagsins. Ég taldi umræðu um mörg þau málefni ekki eiga heima í fjölmiðlum og hafði takmarkaðan áhuga á að lenda í orðaskaki við hlutaðeigandi á opinberum vettvangi. Í öðru lagi voru í ráðningarsamningnum mínum hefðbundin ákvæði um þagnarskyldu um málefni félagsins og þau virti ég, bæði á meðan ég starfaði hjá FL Group og eftir að ég sagði upp störfum. Í því samhengi taldi ég stjórn félagsins vera réttan vettvang fyrir umræðu um innri málefni félagsins.

Í ljósi umræðunnar undanfarna daga, og svo þess að langt er um liðið, hef ég ákveðið að upplýsa nú um aðdraganda og ástæður þess að ég fór frá FL Group eftir að hafa starfað sem forstjóri félagsins í einungis fáeina mánuði.

Atburðarásin


Tilkynnt var 16. febrúar 2005 að ég yrði næsti forstjóri Flugleiða/FL Group og tæki formlega við starfi 1. júní 2005. Gengið var frá formlegum ráðningarsamningi 9. júlí 2005. Frá upphafi lá ljóst fyrir að Hannes Smárason, sem fulltrúi aðaleiganda FL Group, yrði starfandi stjórnarformaður og myndi taka talsverðan þátt í daglegum rekstri.

Millifærsla til Lúxemborgar

Um það leyti sem ég tók formlega við starfi forstjóra félagsins fékk ég vitneskju um að Hannes Smárason stjórnarformaður hefði í apríl sama ár látið millifæra tæplega 3 milljarða króna af reikningum félagsins til Kaupþings í Lúxemborg. Engar skýringar, lánaskjöl eða önnur gögn voru til um málið og millifærslan var án vitneskju annarra stjórnarmanna félagsins. Hannes gaf þá skýringu að fjármunirnir væru í vörslu Kaupþings í Lúxemborg og ættu að vera þar til reiðu ef taka þyrfti skyndiákvarðanir um fjárfestingar. Hins vegar neitaði Kaupþing í Lúxemborg ítrekað að gefa mér og öðrum stjórnendum FL Group upplýsingar um peningana og bar við bankaleynd.

Í júní gerði ég stjórnarformanni félagsins grein fyrir því að ekki væri unnt að una við óbreytta stöðu málsins. Annað hvort yrði að upplýsa hvar fjármunirnir væru niðurkomnir eða að þeir skiluðu sér aftur til FL Group með vöxtum. Stjórnarformanninum var jafnframt tjáð að hvorki væri hægt að ganga frá sex mánaða uppgjöri félagsins né láta endurskoðendur fá reikninga þess ef upplýsingarnar lægju ekki fyrir.

Það var þó ekki fyrr en ég talaði beint við forstjóra Kaupþings banka og greindi honum frá málavöxtum að peningarnir skiluðu sér loksins inn á reikning FL Group ásamt vöxtum, fyrir lok júní.

Ófullnægjandi skýring á „hvarfi“ peninganna

Hvar voru svo peningarnir niður komnir? Stjórnarformaður FL Group gaf aldrei viðunandi skýringu á því, að mínu mati. Hins vegar barst á þessum tíma útprentun úr Excel skjali frá Kaupþingi í Lúxemborg þar sem fram komu upplýsingar sem mátti skilja sem svo að peningarnir hefðu á einhverjum tímapunkti, í einhverjum tilgangi, verið millifærðir á Fons. Staðfestingu á því hef ég hins vegar aldrei fengið, hvorki hjá stjórnarformanninum, bankanum né öðrum aðilum.

Þar sem ég taldi mig ekki hafa fengið fullnægjandi skýringar á millifærslumálinu ákvað ég að ræða það við hvern og einn stjórnarmann FL Group, án vitneskju stjórnarformannsins. Ég taldi að stjórn félagsins væri réttur vettvangur til umfjöllunar um málið og vonaðist auðvitað eftir því að stjórnin ræddi það og gripi til viðeigandi ráðstafana, teldi hún ástæðu til. Skömmu eftir að millifærslumálið kom upp sögðu allir þessir stjórnarmenn sig hins vegar úr stjórninni. Einn stjórnarmannanna gerði grein fyrir afsögn sinni á hluthafafundi FL Group eins og kom fram í fjölmiðlum þá.

Á þessum tíma hugleiddi ég mjög hvort ástæða væri til þess að aðhafast eitthvað frekar varðandi þessa millifærslu. Í ljósi þess að ég hafði rætt málið við stjórnarmenn í  félaginu, peningarnir höfðu skilað sér með eðlilegri ávöxtun og að ekkert óyggjandi lá fyrir um að peningarnir hefðu verið notaðir á óeðlilegan hátt, mat ég það svo að ekki væri grundvöllur fyrir mig að aðhafast frekar.

Breytt eignarhald og stjórn

Í kjölfar þess að stjórnarmennirnir hurfu á braut urðu talsverðar hræringar í eigendahópi FL Group. Ný stjórn var skipuð og í henni sátu fulltrúar nýrra hluthafa. Hannes Smárason var áfram stjórnarformaður félagsins.

Þegar fyrri stjórnarmennirnir sögðu af sér íhugaði ég alvarlega að segja upp störfum en ákvað að láta reyna  á samstarf við hina nýju stjórn. Mér fannst það erfið ákvörðun að hætta sem forstjóri eftir svo skamman tíma. Það hafði líka áhrif á þessa ákvörðun að ég hafði starfað hjá Flugleiðum frá árinu 1999 og hafði taugar til félagsins og starfsmanna þess. 

Á þessum tíma hafði ekki verið gengið frá ráðningarsamningi við mig sem forstjóra. Gengið var frá formlegum ráðningarsamningi í byrjun júlí 2005 og í honum var tekið mið af kjörum fyrri forstjóra og öðrum samningum, sem nýlega höfðu verið gerðir við aðra framkvæmdastjóra samstæðunnar. Sérstakur kafli var um „brostnar forsendur“ þar sem kveðið var á um heimild til að hætta störfum með skömmum fyrirvara ef ég teldi að stjórn eða stjórnarformaður hefðu brotið skuldbindingar sínar gagnvart mér, einkum varðandi stöðu og ábyrgð forstjóra. Þetta ákvæði var sett í samninginn að mínu frumkvæði í ljósi þess sem á undan var gengið.

Nokkru síðar kom millifærslan til Kaupþings í Lúxemborg til umræðu á stjórnarfundi. Var ég þá beðin um að víkja af fundi.

Kaupin á Sterling

Á haustmánuðum 2005 lýsti stjórnarformaður FL Group yfir miklum áhuga á að kaupa flugfélagið Sterling af Fons. Fons hafði keypt Sterling í mars 2005 fyrir jafnvirði 4 milljarða króna, að því er fram kom í fréttum. Í lok júní hafði Fons einnig keypt flugfélagið Maersk. Kaupverðið var ekki gert opinbert en gefið í skyn að félagið hefði fengist fyrir lítið. Félögin tvö voru sameinuð undir nafninu Sterling síðar á árinu 2005.

Ég þekkti nokkuð til Sterling og Maersk eftir að hafa starfað hjá Flugleiðum/FL Group í 6 ár og var eindregið þeirrar skoðunar að þau ættu bæði í verulegum rekstrarvanda og væru lítils virði. Ljóst var að margt og mikið þyrfti að gerast til þess að þau yrðu rekin með viðunandi hagnaði. Mér þótti því ekki skynsamlegt fyrir FL Group að kaupa Sterling, allra síst þegar horft var til þess að kominn var verðmiði á félagið upp á tæpa 15 milljarða króna, sem var að mínu mati óskiljanleg verðhækkun á þeim fáu mánuðum sem Sterling var í eigu Fons.

Það fór ekki á milli mála að Hannes Smárason vildi kaupa Sterling og virtust aðrir stjórnarmenn í FL Group sömu skoðunar. Kaupferlið horfði við mér sem formleg afgreiðsla á ákvörðun sem þegar var búið að taka. Áður en gengið var frá samningnum um kaupin á Sterling ákvað ég að láta af störfum.

Átti ekki samleið með stjórn FL Group

Þegar komið var fram á haust 2005 varð mér ljóst að samstarfið við stjórnarformann og stjórn FL Group yrði erfitt og að ég átti ekki samleið með þeim. Fleira kom til, ekki síst framkoma og vinnubrögð stjórnarformannsins. Ljóst mátti vera að við gætum ekki unnið saman til frambúðar.

Í október 2005 lá einnig fyrir að gerðar yrðu skipulagsbreytingar hjá FL Group og í þeim fólst að starfandi stjórnarformaður yrði forstjóri. Mér var boðið að gerast forstjóri þess félags sem síðar tók upp nafnið Icelandair Group. Í ljósi þess sem á undan var gengið hugnaðist mér það ekki.
 
Um miðjan október 2005 tilkynnti ég stjórnarformanninum að ég vildi láta af  störfum og samkomulag varð um það. Ég lét af störfum 19. október 2005. Starfslokin voru að fullu í samræmi við ráðningarsamninginn og málið var ekki rætt frekar.

Ákvörðun mín um að hætta hjá FL Group byggðist þannig á því að ég taldi mig ekki eiga samleið með stjórnarformanni og  stjórn félagsins.
mbl.is