Samgönguáætlun lögð fram á þingi

Gjaldhliðið við Hvalfjarðargöngin.
Gjaldhliðið við Hvalfjarðargöngin.

Kristján L. Möller, samgönguráðherra, lagði í gær fram á Alþingi tillögu um samgönguáætlun til ársins 2012. Þar  kemur m.a. fram að skoðaðir verði áfram valkostir og aðferðir við gjaldtöku af samgöngum og unnið verði að undirbúningi nýrrar framtíðarskipunar gjaldtöku sem taki mið af því að notandinn greiði eftir notkun og byggð er á nýjustu tækni m.a. fyrir umferð á vegum.

Þá segir í tillögunni, að  leitað verði leiða til að fjármagna umfangsmiklar framkvæmdir sem ekki rúmast innan almennra fjárveitinga til áætlunarinnar, m.a. með gjaldtöku af notendum verði það niðurstaða Alþingis.

Í tillögunni eru taldar upp framkvæmdir, sem kynnu að falla í þennan flokk. Eru það Suðurlandsvegur, Vesturlandsvegur, Reykjanesbraut, Vaðlaheiðargöng, Sundabraut, tvöföldum Hvalfjarðarganga, samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli og stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri.

Þá er einnig lýst þeim markmiðum að leita ódýrra leiða til að leggja bundið slitlag á umferðarlitla vegi og gera úttekt á því með hvaða hætti megi koma á strandsiglingum að nýju til að draga úr landflutningum með tilheyrandi álagi á vegakerfið.

Samgönguáætlun 2009-2012

mbl.is

Bloggað um fréttina