Ísland hreinasta land í heimi

Ísland er hreinasta land í heimi, skv. rannsókn vísindamanna við Yale og Columbia háskólana í Bandaríkjunum. Tuttugu og fimm mælikvarðar eru lagðir til grundvallar, svo sem hreinleki vatns og lofts, losun gróðurhúsalofttegunda og áhrif umhverfisins á heilsu þegnanna. Ísland fær 93,5 stig af 100 mögulegum, og nýtur góðs af hreinu vatni, óspilltri náttúru, góðri heilsu og hreinni orku.

Sagt er frá þessu í grein á vefsíðu Forbes. Greinarhöfundur segir að það hljómi ef til vill undarlegt um þessar mundir að Ísland teljist vera hreint land, þar sem þær fréttir sem nú berast af landinu snúast fyrst og fremst um risavaxið öskuský. Aðspurður segir einn vísindamanna sem stóðu að rannsókninni þó að eldgosið muni ekki hafa áhrif á hreinleika landsins, skv. þeirra mælikvarða.

Sviss er í öðru sæti listans, Costa Ríka í þriðja, Svíþjóð í því fjórða og Noregur því fimmta. Sierra Leone er á botni listans, með 32 stig.

Hægt er að lesa greinina hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert