Eldgosið áfram á sama róli

Aðeins virðist hafa dregið úr vantnsrennsli við Gígjökul. Vatnshæð við …
Aðeins virðist hafa dregið úr vantnsrennsli við Gígjökul. Vatnshæð við Markarfljótsbrú er einnig aðeins minni en í gær. www.vodafone.is/eldgos

Lítil breyting hefur orðið á eldgosinu í Eyjafjallajökli í nótt, samkvæmt mælum Veðurstofunnar, að sögn Hjörleifs Sveinbjörnssonar jarðfræðings. Gosórói og GPS-mælingar sýna mjög svipaða niðurstöðu og í gær. Vatnshæð við gömlu Markarfljótsbrúna er ívið lægri en í gær.

Hjörleifur sagði að af vefmyndavél Vodafone, sem beint er að Gígjökli, megi einnig sjá aðeins minna rennsli en var í gær.  Það komi heim og saman við mælinguna við gömlu Markarfljótsbrú.

„Óróinn er mjög svipaður, hann er nánast óbreyttur síðasta sólarhringinn,“ sagði Hjörleifur. Í gær sáu jarðvísindamenn að hraun var farið að renna undir jökulinn. Það kann að hafa brætt meiri ís í fyrstu en síðan hlaðist frekar upp.

GPS mælar höfðu sýnt talsverða hreyfingu í jarðskorpunni kringum Eyjafjallajökul vegna þenslu fyrir eldgosið. Eftir að gosið hófst gekk þenslan nokkuð hratt til baka. Nú hefur hægt mjög á breytingum á GPS mælum og eru breytingarnar mjög litlar nú.

Miklar drunur hafa heyrst frá gosstöðinni í gærkvöldi og morgun. Fram kemur á vefnum sunnlenska.is, að drunurnar heyrist vel á Hvolsvelli og víðar í Rangárþingi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert