Tjón þjóðarbúsins stefnir í 10 milljarða

Spár um 9-11 milljarða króna aukningu í gjaldeyristekjum af ferðaþjónustunni eru í miklu uppnámi vegna eldgossins í Eyjafjallajökli, en útlit er fyrir að áætlanir um 6-7% vöxt í greininni gangi ekki eftir.

Þannig hefur árlegur vöxtur í greininni verið 6-7% síðustu ár og miðuðu spár við áframhaldandi vöxt.

Til að setja það hlutfall í samhengi hefur Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, áætlað að gjaldeyristekjur greinarinnar hafi numið 155 milljörðum króna í fyrra, eða um 20% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar.

Nemur tjónið tugum milljarða?

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er það varlega áætlað, enda hafi bjartsýnustu spár gert ráð fyrir að gjaldeyristekjurnar myndu nálgast 200 milljarða í ár.

Mismunurinn er því í versta falli nokkrir tugir milljarða.

Þótt útlitið sé dökkt vegna afbókana leggur Erna áherslu á að á þessu stigi sé útilokað að áætla hvert tjónið verði þegar upp er staðið.

„Menn eru að skipuleggja sókn til að snúa þessum afbókunum við svo sumarið verði þokkalega gott. Það er ekkert boðið upp á annað. Við erum ekki að horfa fram á þá tekjuaukningu sem við vonuðumst eftir,“ segir Erna sem kveðst aðspurð líta svo á að það yrði varnarsigur fyrir ferðaþjónustuna ef hún héldi í horfinu.

Ferðaþjónustan blæs til sóknar

Ferðaþjónustan ætlar ekki að horfa aðgerðalaus á mögulegt stórtjón af völdum gossins, en fram kemur í viðtali Morgunblaðsins við Ólöfu Ýri Atladóttur ferðamálastjóra að röskunin komi á slæmum tíma. Fólk sé nú að skipuleggja sumarfríin. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert