Forsetinn sniðgekk tilmæli

Forsetinn í viðtalinu á CNBC.
Forsetinn í viðtalinu á CNBC.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fór ekki að þeim tilmælum fulltrúa ferðaþjónustunnar að hann stillti málflutningi sínum um mögulegt Kötlugos í hóf að loknu frægu viðtali á BBC.  Ummæli forsetans hafa m.a. leitt afbókanna í Þýskalandi.

Heimildarmenn Morgunblaðsins í ferðaþjónustu staðfesta að ummælin hafi átt beinan þátt í afbókunum á ferðum til Íslands.

Atburðarásin hófs með viðtali BBC við forsetann 19. apríl síðastliðinn en þar komst hann svo að orði að gosið í Eyjafjallajökli kynni að reynast „aðeins æfing“ í samanburði við mögulegt Kötlugos, sem yrði að líkindum stærra.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins brugðust aðilar ferðaþjónustunnar við yfirlýsingunni með því að fara þess á leit við forsetaembættið að forsetinn yrði gætnari í orðavali á þeim viðkvæma tímapunkti þegar millilandaflug í Evrópu var í uppnámi vegna gossins í Eyjafjallajökli.

Greina má viðleitni í þessa veru hjá forsetanum í síðara viðtali hans við BBC miðvikudaginn 21. apríl og á viðtali við Fox News-fréttastöðina bandarísku daginn áður.

Forsetinn þykir hins vegar hafa höggvið í sama knérun í viðtalinu við CNBC miðvikudaginn 21. apríl en þar varaði hann við því að Kötlugos væri yfirvofandi, jafnvel innan fimm ára, þvert á tilmæli ferðaþjónustunnar.

Brot úr viðtali við hann birtist svo á alþjóðlegri útgáfu sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera, þar sem hann sagði ekkert sameina þjóðina eins  og hörmungar af þessu tagi, en sérstaklega er vikið að viðtölunum á vefsetri forsetans, forseti.is.

Málið er viðkvæmt og komst einn heimildarmaður svo að orði að „skaðinn yrði ekki bættur svo glatt“, með vísan til afleiðinganna af ummælum forsetans.

Umræðan ekki verið ábyrg

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, er í hópi þeirra sem hafa gagnrýnt ummæli forsetans.

Þannig telur hann aðspurður óheppilegt að vekja sérstaka athygli á þeim möguleika að fleiri eldgos kunni að fylgja í kjölfarið á gosinu í Eyjafjallajökli og vísar til ummæla forsetans.

„Mér finnst sú umræða ekki hafa verið ábyrg. Ég verð bara að vera hreinskilinn með það [...] Mér fannst ummælin mjög óheppileg og ekki við, hvorki stað né stund, að vera að velta því fyrir sér hvort Katla muni hugsanlega gjósa.“ 

Aðspurður um áhrifin af gosinu á aðsóknina í lónið bendir Grímur á að kannanir bendi til að 75-80% erlendra ferðamanna komi við í því.

„Þannig að við finnum sterkt fyrir því þegar skrúfast svona fyrir ferðamannastrauminn. Við munum taka saman tölur um helgina fyrir apríl og bera saman við sama mánuð í fyrra [...],“ segir Grímur og bendir á að aðsóknin fram að gosinu í Eyjafjallajökli hafi farið fram úr vonum.

Í kjölfar þess hafi erlendir hópar hins vegar frestað heimsóknum sínum fram á haustið.

Heppnist fyrirhugað markaðsátak í ferðaþjónustu vel séu líkur að takast muni að fá aftur þann fjölda sem glataðist á síðustu tveimur vikum og eitthvað áfram næstu daga, með meiri aðsókn í haust.

Með því geti unnist sá varnarsigur að takast muni að halda í horfinu frá því í fyrra.

Þjóðverjar hætta við ferðir 

Ljóst er að ummæli forsetans vöktu gríðarlega athygli. 

Þannig setti þýskur ferðaheildsali setti sig í samband við Icelandair Hotels í kjölfarið og greindi frá afbókunum á ferðum til Íslands þeirra vegna.

Hildur Ómarsdóttir, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs hjá Icelandair Hotels á Íslandi, staðfesti þetta.

„Seinast í dag var þýskur ferðaheildsali að vitna í þau orð [...] Honum fannst þetta hindra sína sölu, að fólk væri hrætt við að fara til Íslands.“

Hildur kveðst líta svo á að í allri umfjölluninni um Ísland felist mikið tækifæri. Ummæli forsetans séu þar engin undantekning enda megi snúa þeim upp í tækifæri sé rétt haldið á málum.

„Undirbúa þurfi mjög harða markaðssókn um leið og flugið kemst í lag,“ segir Hildur sem telur aðspurð að hér hafi byggst upp röng mynd af stöðunni á Íslandi og útlitinu fram undan.

Enginn að bóka ferð til Íslands núna

„Það ber að hafa í huga að þessa dagana er svokallað afbókunartímabil í gangi. Það er, ferðaheildsalar erlendis eru að losa um blokkir af bókunum í bæði flug og gistingu fyrir sumarið, þ.e.a.s. í þær brottfarir sem ekki hefur náðst að selja. Þeir eru að afbóka það núna en þeir gera það alltaf á þessum tíma árs. Þetta brenglar í fyrsta lagi stöðuna.

Í öðru lagi hefur til okkar hótela ekki borist mikið af beinum afbókunum í tengslum við gosið fyrir sumarið. Þær eru hreinlega ekki farnar að berast enn [...] Hins vegar höfum við áhyggjur af því hversu mikið er farið að hægjast á bókunum. Það er enginn að bóka ferð til Íslands núna [...] Þetta er háannatímabil í sölu og kemur á versta tíma.“

Fullt hús af strandaglópum

Hildur leggur áherslu á að þrátt fyrir dýfuna í kjölfar gossins og mikillar röskunnar á flugsamgöngum stefni apríl í að verða ágætur mánuður í rekstri Icelandair Hotels. 

„Apríl stefndi í að verða metmánuður, bæði á Hilton Reykjavík Nordica og Icelandair Loftleiðum. Rétt fyrir gos stefndi nýtingin á Hilton í rúmlega 70% og í rúm 60% á Hótel Loftleiðum. Á hvorum stað fyrir sig hefur nýtingin í lok mánaðar farið niður um 10-12%. Það er þó ekki meira,“ segir Hildur og bendir á að „félagið hafi náð inn þremur dögum af smekkfullum tveimur hótelum þar sem húsin voru full af strandaglópum“. 

Útlendingar fá rangar upplýsingar

Hildur gagnrýnir miðlun upplýsinga um gosið.

„Við leyfum erlendum fjölmiðlum of mikið að komast í rangar upplýsingar og tala niður landið okkar sem áfangastað. Þá á ég við að það hefur verið einblínt á aðstæður í kringum gosið og fyrir austan, á meðan að sáralítil umfjöllun hefur verið hversu lítið okkar daglega líf í höfuðborginni hefur raskast.“

- Hvað með ummæli forsetans um Kötlu?

„Þessi orð eru sögð. Ég held að það sé kominn tími til að hætta að velta sér upp úr því og einbeita sér frekar að því hvað við ætlum að gera við þetta og hvernig við ætlum að snúa þessu í andhverfu sína sem er jákvæð markaðssetning á landinu sem lifandi eyja sem enn er í mótun.“

Aprílmánuður „ónýtur“

Hvað sem líður mögulegum áhrifum forsetans á eftirspurn eftir ferðum til Íslands er ljóst að gosið hefur þegar leitt til umtalsverðs tekjutaps hjá ferðaþjónustuaðilum. 

Aðspurður um áhrif þeirrar röskunar sem orðið hefur á flugi til og frá landinu vegna eldgossins í Eyjafjallajökli segir Stefán Sigurðsson, framkvæmdastjóri Perlunnar, að apríl sé „ónýtur mánuður“ í rekstri veitingahússins.

Tapið sé svo íþyngjandi að uppsveifla síðar á árinu vegna markaðsátaks í ferðaþjónustunni muni ekki vega það upp. Sú aukning geti ekki staðið á móti útlögðum kostnaði vegna tómra sala.

„Hann fæst aldrei til baka nema aðeins brot af honum,“ sagði Stefán um kostnaðinn.

Gífurlegar afbókanir

Stefán rifjar upp fund með framkvæmdastjóra vinsæls veitingahúss fyrr í mánuðinum þar sem þeir hafi borið saman bækur sínar.

Þar hafi Stefán upplýst að hann hafi tekið á móti nokkur hundruð afbókunum en kollegi hans fengið afbókanir fyrir 11 stóra hópa.

„Og þetta var rétt að byrja. Strax eftir helgi hélt þetta áfram.“

Mikil mistök í miðlun upplýsinga

Stefán er gagnrýninn á miðlun upplýsinga frá Íslandi um gosið og telur að mistekist hafi að koma þeim grundvallarskilaboðum til umheimsins að Ísland væri stór eyja sem öruggt væri að sækja heim, jafnvel þótt eldgos stæði yfir í Eyjafjallajökli.

„Það vantaði að útskýra að það væri enginn hætta á ferðum. Maður sá hvergi menn vera að tala um hvað landið væri stórt og strjálbýlt og hversu langt gosið væri í burtu.

Útlendingar voru bara hræddir. Menn hafa verið að hringja og spyrja „Er allt í lagi hjá ykkur?““

Inntur eftir áhrifunum á veitingahúsabransann almennt segir Stefán að hann viti til þess að tómlegt hafi verið um að litast á veitingahúsum í miðbæ Reykjavíkur sem reiði sig á erlenda ferðamenn. 

„Það hafa allir í bransanum fundið heilmikið fyrir þessu. Þetta er ónýtur mánuður [...] Fyrsta vikan í maí er ónýt,“ sagði Stefán.

Bláa lónið.
Bláa lónið. mbl.is/RAX
Talsvert hefur borið á afbókunum í veitingasal Perlunnar.
Talsvert hefur borið á afbókunum í veitingasal Perlunnar. mbl.is/Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert