Ráðherrar útdeili ekki peningum í sjónvarpsviðtölum

Ásbjörn Óttarsson
Ásbjörn Óttarsson

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi það á Alþingi í dag að ráðherrar tilkynntu Alþingi það í fjölmiðlaviðtölum, þegar þeir ætluðu að útdeila háum fjárhæðum í ákveðin verkefni.

Minnti hann á að Alþingi færi með fjárveitingarvaldið, en vísaði í sjónvarpsviðtal við Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra þar sem hann sagðist hafa ákveðið að setja hálfan milljarð króna til viðbótar í viðhald og endurbætur á opinberum byggingum.

Sagði Ásbjörn tíma kominn á að þingmenn hættu að tala bara um aukinn aga í fjármálum ríkisins og færu að gera eitthvað í málinu.

Pétur H. Blöndal tók undir með Ásbirni og sagði það ekki bara lögbrot að úthluta fé úr ríkissjóði án atbeina Alþingis. Það væri stjórnarskrárbrot. Hann sagði mikilvægt að auka agann í fjármálum í samfélaginu öllu, ekki bara við fjárlagagerðina. Hann benti líka á að Icesave-samningarnir og Tónlistarhúsið væru dæmi um risavaxin ríkisútgjöld sem hvergi væri minnst á í fjárlögum. Með því sýndu stjórnmálamenn af sér agaleysi og væru að plata sjálfa sig.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, varð fyrir svörum. Sagði hann það rétt að það hefði viðgengist að ráðherrar gæfu yfirlýsingar um fjárútlát ríkisins án samráðs við Alþingi.

„Í sjálfu sér væri það ekki athugavert, ef það fylgdi að menn ætluðu að beina því til Alþingis eða fjárlaganefndar að menn ætluðu að setja þetta á fjárlög. Einhvern sveigjanleika þyrfti þó til, svo bregðast megi við fjárþörf í kerfinu með fljótlegri hætti en að bíða eftir útgáfu næstu fjárlaga að ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina