Uppgjör í þjóðkirkjunni

Á Prestastefnu liggur fyrir tillaga um að lýsa stuðningi við frumvarp, sem nú er til meðferðar á Alþingi um jafnan rétt samkynhneigðra og gagnkynhneigðra til hjónavígslu. Heitar umræður fór fram um málið í morgun en þar sagði Halldór Gunnarsson, prestur í Holti, sögu sóknarbarns sem telur tillögu þessa eyðileggja hjónaband sitt.

Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti, lagði fram gagntillögu á fundinum þar sem hann lagði til að ef hún yrði samþykkt afsali prestar sér vígsluvaldi. Ef prestar segðu sig frá vígsluvaldinu þýddi það að þeir færu ekki lengur með hið lögformlega vígsluhlutverk. Fólk þyrfti þá að formlega að gifta sig, t.d. hjá fógeta, en gæti eftir sem áður notið blessunar í kirkju óskaði það þess. 

Það er kirkjuþing sem endanlega sker úr um málið í haust en til þess að málið verði tekið fyrir þar þarf það að vera samþykkt á Prestastefnunni sem nú stendur yfir. 

 
mbl.is