Ekki heimilt að gengistryggja

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að Landsbankanum sé ekki heimilt að reikna fjárhæð skuldar, sem bankinn krafðist kyrrsetningar á, með hækkun vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslensku krónunni. Miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en ekki megi reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.

Málið, sem kveðinn var upp úrskurður í í morgun, var höfðað vegna vangoldinna skulda sem engar tryggingar voru taldar vera fyrir. Krafðist bankinn fyrst kyrrsetningar á eignum en breytti því síðan og krafðist gjaldþrotaskipta á félaginu sem átti í hlut, þar sem það ætti ekki fyrir skuldum. Taldi bankinn kröfur sínar nema um 850 milljónum króna, en höfuðstóll lánanna var í krónum aðeins á fjórða hundrað milljóna.

Vísaði dómarinn í úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá  12. febrúar, sem einnig fjallaði um gengisviðmiðun í lánasamningum og sagði þá niðurstöðu mjög skýrt orðaða. Allir lánssamningar sem um ræði hafi verið settir fram í krónum, en ekki erlendum gjaldmiðlum, en tengingin við erlenda gjaldmiðla aðeins verið form verðtryggingar.

„Að þessu athuguðu verður að miða við að upphaflegur höfuðstóll skulda varnaraðila hafi verið 357.500.000 krónur og að hann hafi ekki hækkað,“ segir í úrskurðinum. Þar sem varnaraðilinn í málinu, félagið Þráinn ehf., taldi sig eiga eignir fyrir um 600 milljónir króna var kröfu bankans um gjaldþrotaskipti á félaginu hafnað.

Bankinn var dæmdur til að greiða Þráni ehf. 300.000 krónur í málskostnað. Það var Jón Finnbjörnsson héraðsdómari sem kvað upp úrskurðinn.

Dómurinn í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert