Nýtt til að efla þyrlubjörgunargetu

Varðskipið Ægir.
Varðskipið Ægir. Landhelgisgæslan

Greiðslur til Landhelgisgæslu Íslands vegna þátttöku í verkefni á vegum Landamærastofnunar Evrópu, FRONTEX, í sumar og haust verða nýttar til eflingar þyrlubjörgunargetu. Þetta kom fram í máli dómsmálaráðherra á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Þó svo ekki hafi verið ákveðið nákvæmlega hvernig útfærslan verður þykir einsýnt að þátttakan muni hjálpa Gæslunni við að ná endum saman og halda uppi ásættanlegri björgunargetu. Svonefnd þyrlunefnd dómsmálaráðuneytis hefur skoðað málið og telur ásættanlegri björgunargetu verði náð með þremur þyrlum af gerðinni Super puma í rekstri. Gæslan er með tvær slíkar þyrlur í rekstri um þessar mundir og eina minni, sem leigð er af norska fyrirtækinu CHC Helikopter Service.

Þverpólitísk nefnd vinnur svo að því, að velta við hverjum stein og spyrja hvort eitthvað megi gera með ódýrari hætti eða alls ekki. Markmiðið er að forgangsraða björgunargetunni eins og hægt er.

Annað varðskip Gæslunnar hélt nýverið í miðjarðarhafið þar sem starfsmenn starfa við gæslu á sameiginlegum Schengen landamærum. Skipið verður í notkun fyrir FRONTEX fram í október. Sérstaklega er tekið fram, að ekki var gert ráð fyrir rekstri skipsins á fjárhagsáætlun Gæslunnar og því er ekki verið að "missa" skipið. Hægt var að endurráða mannskap á skipið sem búið var að segja upp og verður þeim haldið í þjálfun.

Hvað varðar flugvél Gæslunnar, TF-SIF, þá verður hún notuð við Gæslu yfir Eyjahafinu í júnímánuði og svo aftur við Vestur-Afríku í ágúst og september. Hins vegar er ákvæði í samningnum við FRONTEX, að flugvélina megi kalla aftur til Íslands án fyrirvara sé þörf á henni hér.

TF-SIF verður notuð í Frontex-verkefninu.
TF-SIF verður notuð í Frontex-verkefninu. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert