Ekkert lát á eldgosinu

Aukin skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli bendir til þess að nýtt efni sé að koma djúpt að upp undir fjallið og GPS-mælingar benda til útþenslu á ný. Útþenslan er ekki mikil enn sem komið er. Ekkert bendir til þess að gosi sé að ljúka. Þetta er meðal þess sem kemur fram í stöðuskýrslu Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar í kvöld.

Þar kemur fram að vitað er um gjóskufall á Sólheimaheiði, við Hjörleifshöfða og í Álftaveri. Engar eldingar hafa mælst síðasta sólarhringinn á kerfi Veðurstofu Íslands.

Háværar drunur í nótt undir Eyjafjöllum svo vart var svefnfriður. Drunur virðast berast langar leiðir, m.a. til Bjarnarhafnar (í gær), Suðurnesja (Hafna), í Borgarfirði, Dalasýslu og kl 07:22 í morgun í Reykjavík (Skerjafirði).

Vegna hlýinda og leysinga sl. sólarhring jókst rennsli í Markarfljóti og náði hámarki um miðnætti. Rennsli frá Gígjökli virðist hins vegar fara minnkandi og eru hitasveiflur í vatnshita við gömlu Markarfljótsbrúna tengdar lofthita. Ekki er hægt að greina á mælum neinar vatnsgusur undan Gígjökli.

Á miðnætti barst viðvörun vegna leiðni frá mælinum við Jökulsá á Sólheimasandi. Síðan þá hefur leiðnin hækkað frá því að vera 170 μS/cm (miðnætti) og upp í 590 μS/cm (kl:15:00). Hugsanlegt er að aska nái að berast í leysingavatnið frá Sólheimajökli. Sýni hafa verið tekin af vatninu til greininga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert