Fréttaskýring: Ísland aldrei verið „jafnlifandi“ kostur

Eldgos
Eldgos mbl.is/Rax

Ferðaþjónustan er uppspretta þeirrar tekjuöflunar sem skilar sér hvað hraðast inn í samfélagið, hún skilaði til dæmis 20% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar í fyrra og 155 milljörðum í þjóðarbúið síðustu ár.

Ríkisstjórnin, Reykjavíkurborg og yfir 60 fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa tekið höndum saman um að veita alls um 700 milljónum króna til markaðsátaks vegna eldgossins í Eyjafjallajökli, sem var eina umfjöllunarefni Ferðamálaþings í gær.

Viðbrögðin hafa verið góð og virðist ferðaþjónustufólk samtaka um að bretta upp ermar og gera allt til að reyna að snúa aðstæðum Íslandi í vil.

Eins og fram kom í máli Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, er þó ekki einfalt verk að láta opinbert fé og fé einkaaðila vinna saman þannig að tekið sé tillit til allra sjónarmiða.

Sigurður Valur Sigurðsson markaðsstjóri Iceland Express tók undir það og sagði það djarfa hugmynd að sameina ferðaþjónustuna í einu stóru markaðsátaki. Að sama skapi væri því mikil ábyrgð falin þeim sem leiddu verkefnið og bæri að varast að draga taum ákveðinna fyrirtækja. Hann sagði orð dagsins tvímælalaust vera „samstaða“ og gæta þyrfti þess að allir kæmu sínu á framfæri.

Athyglin á Íslandi aldrei meiri

Tækifærið til að koma Íslandi á framfæri sem áfangastað virðist einmitt vera núna, ef marka má umræðuna á Ferðamálaþingi í gær.

Þar kom m.a. fram að athyglin sem Ísland hefur fengið undanfarið hefur verið gríðarleg og jafnframt óvenjuleg að því leyti að yfirleitt þegar náttúruhamfarir fá viðlíka umfjöllun í fjölmiðlun er það vegna þess að þær hafa haft í för með sér eyðileggingu og mannskaða. Svo er ekki nú.

Þrátt fyrir áhrif gossins á alþjóðavettvangi eru allir innviðir íslensks samfélags í lagi og hér þarf því ekki að byrja á því að ráðast í allsherjar uppbyggingu áður en unnt er að efla ferðaþjónustu. Skaðinn sem orðið hefur vegna mikils samdráttar í bókunum ferða hingað til lands þarf því ekki að vera til frambúðar þótt hann gæti orðið mikill í sumar.

Helgi Már Björgvinsson, sölu- og markaðsstjóri Icelandair sagði frá því að 800% aukning hefði orðið í leit tengdri Íslandi á vefnum og 600% aukning í leit sem tengist ferðum um Ísland. Áhugi á Íslandi virðist því aldrei hafa verið meiri, en til að hann skili sér þarf að sannfæra fólk um að öruggt sé að ferðast hingað.

Eldgos hafa aðdráttarafl

Þeir ferðamenn sem laðast að Íslandi gera það flestir vegna þess að hér er margbreytileg náttúra. Með það í huga er markmið átaksins m.a. að snúa neikvæðri umfjöllun um gosið í jákvæða og undirstrika að landið sé meira lifandi en nokkru sinni.

Í erindi sínu í lok þings ítrekaði Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur einmitt að eldgos væru sjónarspil náttúrunnar og hefðu sterkt aðdráttarafl. Að nálgast virk eldfjöll ætti að geta verið hættulaust og því ætti að sýna ferðamönnum og fræða þá um það sem gerði landið svo stórmerkilegt, nefnilega jarðfræðilega virkni þess.

Hófstillt umræða

Rannsóknir sýna að fólk gerir greinarmun á áhrifum vegna náttúruhamfara og manngerðra hamfara að sögn þýska prófessorsins Norberts Pfefferleins.

Hann skýrði frá því á ferðamálaþingi að atburðir líkt og eldgosið hefðu ekki neikvæð tengsl í huga fólks, líkt og truflanir á ferðalögum vegna hryðjuverka sem dæmi. Því ætti að vera auðveldara en ella að nýta athyglina sem gosið fær á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Valþór Hlöðversson, framkvæmdastjóri Athygli, sagði jafnframt að rétt eins og yfirvöld í New York ykju ekki ferðamannastraum með því að kynna sérstaklega tölfræði um hryðjuverk í borginni væri óviturlegt að vekja óþarfa ótta með fólki vegna mögulegra hamfara.

Tilmæli um hófstillta umræðu snerust ekki um ritskoðun eða afneitun staðreynda heldur um skynsamlega túlkun þeirra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »